31.03.1927
Efri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í D-deild Alþingistíðinda. (3712)

91. mál, störf fiskifulltrúans á Spáni

Fyrirspyrjandi (Ingvar Pálmason):

Fyrirspurn þessi er fram komin af þeim ástæðum, að margir af þeim, sem sjávarútveg stunda úti um landið, þykjast ekki hafa orðið varir við þær eftirtekjur af fulltrúastarfinu á Spáni, sem vænta mætti eftir því fje, sem til þess er varið. Eins og kunnugt er, eru til þessa starfs ætlaðar 30 þús. kr. Þar af eru veittar á fjárlögum 10 þús., og bankarnir greiða sínar 10 þús. kr. hvor. Nú sjest það á landsreikningnum 1925, að greiðsla ríkissjóðsins hefir orðið 12600 kr. Og ef þeirri reglu er fylgt, sem vænta má, að hvor bankanna greiði 1/3 alls kostnaðar, þá virðist mega ætla, að til starfsins sje varið um 38 þús. króna.

Þetta virðist nú vera það mikil fjárfúlga, að vænta mætti, að árangur yrði drjúgur af starfinu. En eins og jeg tók fram í upphafi máls míns, er útvegsmönnum úti um landið hann lítt kunnur. Má vera, að árangur sje miklu meiri en kunnugt er. En þótt svo sje, er fyrirspurn mín síst óþörf, því að ef það upplýsist, að starfið sje virkilega þess vert, að til þess sje varið slíku fje, þá ætti það að miða að því að fyrirbyggja þann misskilning, sem á sjer nú stað um þetta efni.

Jeg skal geta þess, að jeg tel nokkra ástæðu til þessarar óánægju úti um landið, þar sem þannig hefir viljað til, að einmitt síðan þetta embætti var stofnað þarna suður frá, þá hefir altaf hallað meir og meir á ógæfuhliðina með fisksöluna þar syðra. Það sje fjarri mjer að halda fram, að þetta sje að kenna þessu embætti. En hitt er ofur eðlilegt, þegar svona hittist á, að upp komi sú spurning, hvort fje sje virkilega vel ráðstafað, sem varið er til þessa embættis. Það mun enginn vafi á því, að hver og einn, sem lætur sig sjávarútveg að einhverju leyti varða, muni alls ekki sjá eftir þessari upphæð, hvort heldur væri 30 þús. eða 38 þús. kr., til þess að bæta markaðsástand sjávarútvegsins úti um heiminn. Langt frá því. En hitt er annað mál, að upphæðin er það mikil, að full ástæða er til, að þjóðin fái vitneskju um það, hvort upphæðinni er vel varið og yrði ekki betur varið á annan hátt.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara út í þetta frekar, fyr en hæstv. stjórn hefir gefið svar við fyrirspurninni. Jeg hefi í stuttu máli reynt að lýsa, hvernig stendur á, að fyrirspurnin er fram komin. Undir svari hæstv. stjórnar geri jeg ráð fyrir að verði komið, hvort jeg finn ástæðu að taka til máls frekar um þetta mál. Jeg geri sem sje ráð fyrir, að hæstv. stjórn geti sýnt fram á, að störf fulltrúans hafi borið þann árangur, að fullkomlega sje þess vert að verja til þess svo hárri upphæð. En ef mjer á hinn bóginn virðist ekki svarið fullnægjandi til þess, þá getur það auðvitað gefið tilefni til að segja fáein orð síðar. Sem sagt: það má ekki að svo komnu líta á þessa fyrirspurn sem neina árás á þetta starf. Hinsvegar ætlast jeg fyllilega til, að ef um nokkra veilu er þarna að ræða, þá sæti hún fullkominni gagnrýni Alþingis. Fisksöluhorfur hjá okkur Íslendingum eru nú svo alvarlegar, að ef á þessum stað einum þarf að verja upp undir 40 þús. árlega til þess að halda í horfinu, ekki betur en tekist hefir þessi síðustu tvö ár, sem þetta embætti hefir staðið, þá verð jeg að segja, að við verðum að rista betur á, því að áreiðanlega þarf víðar að gæta hagsmuna okkar og gera tilraunir til rýmkunar á einhverjum fiskmarkaði heldur en á Spáni. Sje okkur nauðsynlegt að eyða þessu fje þarna, þá þurfum við áreiðanlega að verja miklu meira fje í þessu skyni, til þess að fisksalan geti komist í sæmilegt horf, þannig, að fiskveiðar geti borgað sig. En að svo stöddu skal jeg ekki fara lengra út í þetta, en vík sennilega að því síðar undir umræðunum, ef tilefni gefst.