31.03.1927
Efri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 718 í D-deild Alþingistíðinda. (3713)

91. mál, störf fiskifulltrúans á Spáni

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. fyrirspyrjandi (IP) var eins og að vaxa við að skoða þessa fyrirspurn fram komna sem neinn fordóm um þessa stöðu þar syðra. Jeg hefi alls ekki tekið hana þannig. Hitt er mjer að vísu kunnugt, að hv. fyrirspyrjandi hefir altaf verið á móti henni, og þess vegna bjóst jeg ekki við, að hann liti hana sjerlega vingjarnlegum augum. Kann því að vera, að hann líti ekki sendimanninn og starfið alveg rjettu auga. — Annars er það ekki aðalatriði. Aðalatriðið er, að hann spyr fyrst og fremst um, hver árangur hafi orðið af starfi fulltrúans á Spáni fyrir sjávarútveginn. Jeg veit, að allir, sem hjer eru viðstaddir, geta ímyndað sjer, að það er nokkuð erfitt að segja með vissu, hvern árangur slíkt ber. Þótt svo sje, að greitt sje fyrir markaði og útvegaður nýr, þá er það nokkuð, sem ekki er hægt að sanna. Og jeg geri ekki ráð fyrir, að það sje hægt með vissu að benda á neitt verulegt í þessu efni. En hitt get jeg upplýst, að þessi sendimaður sendir skýrslur um sín störf á hverjum mánuði og upplýsingar um markaðshorfur þar syðra, verðið á markaðinum, hversu miklar birgðir eru á hinum einstöku stöðum og hversu mikið hefir selst frá því síðasta skýrsla var send. Þessar skýrslur eru svo sendar Fiskifjelaginu, og þar geta hvaða fiskseljendur sem er fengið að vita, hvernig horfur eru þar suður frá. Þetta starf er aðallega í þágu þeirra, sem þurfa að selja fisk sinn innanlands; það er leiðbeining um, hvaða verð þeir eigi að heimta fyrir sína vöru. Áður var það svo, að það var ekki eftir neinu að fara nema því, hvað fiskútflytjendur vildu bjóða í fiskinn hjer. Þetta starf sýnist mjer því aðallega miða að því að vernda hag smærri framleiðenda, þeirra manna, sem selja sinn fisk til fiskútflytjenda.

Að öðru leyti er mjer kunnugt um það, að þessi sendimaður hefir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar hjálpað út úr vandræðum, sem urðu út af aðfinslum á fiskfarmi. Þegar slík óánægja hefir risið og matið hefir verið talið rangt, hefir hann verið kallaður til og venjulega hepnast að kippa öllu í lag, svo að kaupendur hafa látið sína kröfu niður falla. Í þessum efnum er oft um stórfje að ræða, og jeg er í engum vafa um, að með þessari starfsemi sinni einni hefir hann unnið vel fyrir sínu kaupi öllu saman. Það er víst óhætt að segja, að með slíkri lagfæringu viðvíkjandi einum einasta farmi hefir hann unnið fyrir tvöföldum eða þreföldum árslaunum sínum.

Það er rjett, að bankamir borga 1/3 af kostnaðinum hvor, svo að allur kostnaðurinn hefir orðið það, sem hv. spyrjandi tilfærði. — Það er rjett hjá honum, að fisksöluhorfurnar eru alvarlegar og fiskverð hefir farið lækkandi upp á síðkastið. Hitt þarf ekki að taka fram, að sendimanninum verður ekki kent um það, enda hefir og hv. fyrirspyrjandi sjálfur nefnt það. En það segir sig sjálft, að því erfiðari sem markaðshorfur eru þar syðra, því nauðsynlegra er að hafa þarna mann til þess að aðstoða okkur, mann, sem getur gefið okkur áreiðanlegar upplýsingar um, hvernig markaðshorfur eru á hverjum stað.

Í öðru lagi spyr hv. þm., hvað fulltrúinn hafi gert til þess að afla íslenskum saltfiski álits utan Spánar, vinna nýja markaði og færa út áður þekta markaði. Um þetta er það að segja að hann hefir staðið í brjefaskiftum og átt samtöl við mörg firmu, sumpart á Ítalíu og sumpart í Portúgal. Aftur á móti hefir hann ekki ferðast mikið og mjer vitanlega ekki staðið í sambandi við firmu annarsstaðar. Skal jeg þó ekki fullyrða, hvort svo er, kann að vera eitthvað á Balkanskaga. En mjer þykir það ekki líklegt. Og jeg get ekki bent á, að hann hafi útvegað nýja markaði eða komist í samband við firmu, sem ekki höfðu áður keypt hjer fisk. (PO: Á Spáni?). Á Ítalíu og Portúgal, en fullyrt þetta get jeg ekki. — Annars er það svo yfirleitt, að þótt menn sjeu sendir til annara landa til þess að reka verslunarerindi, þá er ekki hægt að benda beinlínis á árangur eftir skamman tíma. Við höfum áður sent ýmsa, og er ekki hægt að benda á, að þeir hafi beinlínis útvegað nýja markaði. En þó efast jeg ekki um, að nokkurt gagn hefir orðið af för þeirra.

Jeg læt þetta nægja fyrst um sinn, þar til hv. fyrirspyrjandi lætur til sín heyra.