31.03.1927
Efri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í D-deild Alþingistíðinda. (3718)

91. mál, störf fiskifulltrúans á Spáni

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg get svarað hv. 2. þm. S.-M. (IP), þó ekki sje til annars en fylla þingtíðindin, því að mjer sýnast allþunnskipaðir bekkir hjer nú, og sýnir það ekki áhuga manna á málinu.

Hv. 1. landsk. (JJ) gerði fyrirspurn um það, hvers vegna kostnaðurinn við erindrekann á Spáni hefði farið fram úr áætlun. Að svo varð, stafar af því, að kaup hans var ákveðið í sterlingspundum, og var svo um samið, að hann hefði 100 sterlingspund á mánuði. Er það því gengismunurinn, sem þessu var valdandi. Þá spurði hv. þm., til hve langs tíma hefði verið samið við Gunnar Egilson. Við hann var samið til 5 ára; er því ekki rjett hjá hv. 1. landsk., að sendimaður þessi hafi lífstíðartryggingu fyrir stöðunni. Þá var það heldur ekki rjett hjá honum, að jeg hefði ekki bent á neitt, sem erindrekinn hefði gert. Jeg sagði þó, að sýnilegt væri, að hann hefði bjargað miklum verðmætum með því að jafna ágreining um mat tveggja skipsfarma, auk margs annars, sem ekki væri svo þægilegt að benda ákveðið á.

Hv. fyrirspyrjandi (IP) sagðist ekki hafa sjeð birtar neinar skýrslur frá sendimanninum. Þetta má vel vera, en jeg get ekkert gert að því. Skýrslu þær, sem birta mátti fyrir almenningi, voru birtar í „Ægi“, og þó að hann hafi ekki komið auga á þær þar, getur það ekki verið mín sök.

Þeirri spurningu, hver árangur hafi orðið af starfi erindrekans, er ekki svo þægilegt að svara frekar en jeg gerði. Að spyrja þannig, er alveg sama og ef einhver spyrði um árangur af starfi einhvers þingmanns. Það getur verið, að ekki sje gott að benda á það. Maðurinn getur hafa verið nýtasti þingmaður, unnið mikið og gott starf í nefndum, þó að hann hafi kannske ekki talað mikið á fundum.

Þá sagði hv. fyrirspyrjandi, að ekki mætti „líðast, að fundið væri að“ fiskimati okkar þar suður í löndunum. Jeg skil ekki, hvernig hv. þm. fer að segja þetta. Mjer finst það beinlínis heimskulegt; því hvað getum við gert að því, þó að Spánverjar finni að matinu. Það eina, sem við getum gert, er að hafa mann þar til þess að sýna þeim fram á, að aðfinslurnar sjeu ekki rjettmætar. En það er aldrei nema satt, að Spánverjar finna oft upp á því að segja, að fiskurinn sje ekki rjett metinn. Er því nauðsynlegt að hafa erindrekann þar, til þess að sýna þeim fram á hið gagnstæða. En að eiga það undir spönskum fiskikaupmönnum, held jeg að ekki væri holt, því að fjöldi dæma er til því til sönnunar, að það er nær því ómögulegt að ná rjetti sínum þar syðra, og þegar málin eru loks útkljáð, þá virðist manni það ekki vera gert hlutdrægnislaust. Annars þætti mjer gott að vita hjá hv. þm. (IP), hvernig við eigum að hindra það, að Spánverjar setji út á fiskimat vort. Jeg sje enga leið til þess, en hitt er annað mál, hvort aðfinslurnar eru á rökum bygðar eða ekki, og til þess að fá rjettan dóm um það, þurfum vjer að hafa sendimanninn á Spáni. Og einmitt með þessu gerir hann stórmikið gagn. Jeg sje ekki, að ritdeilan milli erindreka okkar á Spáni og Pjeturs Ólafssonar komi neitt þessu máli við. Erindrekinn hefir að sjálfsögðu rjett til þess að hafa sínar skoðanir, eins og aðrir. En því neita jeg harðlega, að hann láti sjer eins ant um hag Spánverja þar syðra eins og okkar. Tel jeg þetta ósæmilegar og óskammfeilnar dylgjur í garð þessa opinbera starfsmanns. Og ummæli hv. þm. (IP) um, að jeg hafi samið til langs tíma til að tryggja Gunnari Egilson stöðuna, eru hrein rakaleysa. Hv. fyrirspyrjandi sagði ennfremur, að nauðsyn bæri til, að fulltrúinn rækti starf sitt með áhuga. Þetta er alveg rjett, en jeg veit ekki um, að nokkur maður geti borið núv. fulltrúa áhugaleysi á brýn. En þegar hv. fyrirspyrjandi segir, að hann eigi að vinna að því að minka Spánarmarkaðinn, get jeg ekki lengur verið samþykkur. Hann á vitanlega að beita til þess kröftum sínum að auka markaðinn. Við getum altaf hætt að versla við Spánverja fyrir því, þótt við höfum náð hjá þeim góðum markaði.

Ræða hv. 4. landsk. (MK) gefur ekki tilefni til andsvara að öðru leyti en því, að jeg man alls ekki til, að neitt hafi verið hringlað með fiskimatið á síðustu árum frá landsstjórnarinnar hálfu. Ef nokkuð hefir verið breytt til,. þá hafa fiskimatsmennirnir tekið það upp hjá sjálfum sjer.