31.03.1927
Efri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 749 í D-deild Alþingistíðinda. (3720)

91. mál, störf fiskifulltrúans á Spáni

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg gæti vitanlega talað langt mál við þingtíðindin í sambandi við þetta mál, eins og hv. 2. þm. S.-M (TP), sem hefir nú talað svo lengi, að menn eru farnir út bæði hjer úr hv. deild og af pöllunum. En jeg mun láta mjer nægja að bera til baka þær fullyrðingar hv. þm. (IP), að jeg muni hafa dregið undan eitthvað af störfum fiskifulltrúans á Spáni, til þess að geta bætt því við síðar. Mjer er fyrst og fremst ekki sú list lagin að draga neitt undan í ræðum mínum, enda hygg jeg, að jeg segi jafnan skoðun mína afdráttarlaust. Og í öðru lagi hygg jeg, að fiskifulltrúanum sje engin þökk á því, að jeg dragi neitt undan af verkum hans. En hvað þær skýrslur fulltrúans, sem ekki þótti rjett að birta, snertir, þá get jeg vitanlega ekki frekar nú en áður skýrt frá því opinberlega, hvað í þeim stóð, en ef hv. þm. (IP) vill fá að sjá þær hjá mjer sjálfur, þá er það öðru máli að gegna. Hv. þm. gaf það í skyn, að það væri og hefði verið ólöglegt að greiða fulltrúanum laun hans í pundum, en það hefir nú ekki komið okkur að tjóni enn þá, heldur höfum við þvert á móti grætt á því. Ef krónan fjelli í verði, mundi ríkissjóður tapa á því, en frá því að þetta var ákveðið þannig, þá hefir krónan altaf verið að hækka, svo að hingað til hefir ríkissjóður grætt á þessari ráðstöfun. Jeg skal í þessu sambandi taka það fram, að það var þegar í upphafi skilyrði af hálfu þessa manns, sem hlut á að máli, að hann fengi laun sín greidd í peningum, sem væru í gullgildi, svo að hann yrði ekki háður gengissveiflum.

Hv. þm. sagði, að hið eina, sem jeg hefði vel gert í máli þessu, væri, að jeg hefði ekki samið við fulltrúann lengur en til 5 ára. En hvað hefir hv. þm. (IP) gert þessu máli gott. Ekkert. Hann hefir aðeins reynt að spilla fyrir því, að starf sendimannsins á Spáni gæti borið góðan árangur.

Þá sagði hv. þm., að hæglega mætti síma skýrslurnar út um land. Jeg hygg, að það mundi verða ærið kostnaðarsamt, enda hefir enginn farið fram á það hingað til. Og þó að það yrði gert þá er jeg ekki viss um, að hv. þm. (IP) þætti þær koma til sín í tæka tíð. Fiskifjelagið átti í upphafi að taka á móti skýrslunum, enda stendur það því næst að birta þær umboðsmönnum sínum úti um landið. Það er því best fyrir hv. þm. (IP) að beina skeytum sínum þangað.

Þá hefir hv. þm. misskilið orð þau, er jeg hafði um starf þingmanna. Jeg sagði, að það yrði erfitt að sanna það gagn, sem orðið hefði af starfi sumra þingmanna, en þó gætu þeir hafa int af hendi mikið og gott starf, t. d. í nefndum.

Þá sagði hv. þm., að umboðsmaðurinn á Spáni ætti ilt aðstöðu um að gera út um það, hvort mat á fiski væri gilt eða ógilt. Þar sem hv. þm. talar um gilt eða ógilt mat, þá vil jeg nefna það rangt eða rjett mat, því að ef fiskurinn er t. d. seldur þannig, að hann má ekki vera undir ákveðinni stærð, þá er ekki um neitt ógilt mat að ræða, þó að hann fylli ekki þau skilyrði. En matsvottorðið er rangt, ef fiskurinn hefir ekki ákveðna stærð, og ætti fiskifulltrúinn fullkomlega að geta verið dómari í því efni.

Hv. þm. heldur því fram, að fiskimarkaður vor á Spáni sje fullplægður. Jeg get ekki neitað því, að mig furðar mjög á því, að hv. þm. (IP), sem ætti að hafa vit á þessu, skuli halda slíku fram. Annað mál er það, að sjálfsagt er fyrir oss að reyna að fá einnig markað annarsstaðar. Enda hefi jeg aldrei neitað því. Hv. þm. gerir mjer í því efni upp orð, sem jeg hefi aldrei sagt. Þá er það algerlega röng skoðun hjá hv. þm. og hættuleg, að vjer ættum að eyðileggja markað vorn á Spáni, fyrst og fremst af því, að oss getur aldrei orðið neinn óhagur að því, þótt markaður vor þar sje mikill, og auk þess gerist þess engin þörf, þegar af þeirri ástæðu, að vjer getum verið lausir við hann, þegar vjer viljum.

Þá kom hv. þm. með aðfinslur um það, hverjum þetta fulltrúastarf var veitt, en þó viðurkendi hann, að hann vissi ekki, hverjir sótt hefðu um starfið. Bendir það óneitanlega ekki á, að hv. þm. sje sjerstaklega samviskusamur í dómum sínum. Hann talaði um, að betra hefði verið að veita þetta starf öðrum, er um það sóttu. En jeg get frætt hv. þm. á því, að sá umsækjandinn, sem til greina gat komið annar en núverandi fulltrúi, tók umsókn sína aftur, vegna þess að honum þóttu launin of lág, en þriðji umsækjandinn gat ekki komið til álita.