06.04.1927
Efri deild: 46. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í D-deild Alþingistíðinda. (3729)

92. mál, yfirsíldarmatsstarf á Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Ingvar Pálmason):

Fyrirspurn þessi er borin fram í tilefni af því, að síðastliðið sumar andaðist yfirsíldarmatsmaðurinn á Seyðisfirði, og að honum látnum var gerð sú ráðstöfun á starfi hans, að það var falið yfirsíldarmatsmanninum á Akureyri, en enginn yfirsíldarmatsmaður settur á Austfjörðum. Nú hittist svo á, að einmitt um þetta leyti byrjaði síldveiði fyrir Austfjörðum, og í sumar var hún með allra mesta móti. Svo sem eðlilegt var, gat hinn setti yfirmatsmaður ekki ferðast um umdæmið nema einu sinni, og það fljótlega, því að hann varð að gegna starfa sínum á Akureyri. Hann mun að vísu hafa skipað undirmatsmenn á mörgum stöðum, en svo hagar til um síldveiði á Austfjörðum, að hún er stunduð inni í fjörðunum frá því nær hverjum bæ. Þar af leiðir, að þegar saltað er til útflutnings, fer söltunin fram á því nær hverjum bæ, þar af leiðir enn þá meiri vandkvæði um matið en t. d. á Norðurlandi, þar sem ávalt er saltað mikið á sama stað, og því er auðveldara að hafa umsjón með söltuninni.

Ráðstöfun hæstv. landsstjórnar á stöðunni vakti mikla óánægju á Austfjörðum, af því að mönnum þótti ástæða til að ætla, að það gæti bakað síldarútflytjendum töluvert tjón, að matið var ekki í góðu horfi. Auk þess eru ýmsir, sem álíta, að ráðstöfunin sje gerð eftir mjög vafasömum heimildum, og í þeirra hóp er jeg. Lögin um síldarmat frá 1919 mæla svo fyrir, að matsmenn skuli vera 4, og skuli einn vera búsettur á Seyðisfirði. Auk þess er nú liðinn svo langur tími frá því, er yfirsíldarmatsmaðurinn á Seyðisfirði fjell frá, að menn eru farnir að bera kvíðboga fyrir því, að enginn verði settur í hans stað, og þessi skipun eigi að standa framvegis. Þess vegna hefi jeg haft fyrirspurnina í tveim liðum, og vænti svars við hvorum fyrir sig. Fyrst er sú spurning, eftir hvaða heimildum yfirsíldarmatsstarfið á Seyðisfirði hafi verið sameinað yfirsíldarmatsstarfinu á Akureyri s. 1. sumar. Síðari spurningin er, hve lengi þessi ráðstöfun eigi að standa. — Mjer er ekki ljóst, hvað olli þessari ráðstöfun, en það er tvímælalaust, að skipunin hefir valdið óánægju og tjóni, auk þess sem hún er að mínu áliti þvert ofan í lög.

Nú ætla jeg ekki að fara fleiri orðum um þetta mál, fyr en jeg hefi fengið svör hæstv. ráðh. (MG), því að jeg geri ráð fyrir, að hann færi fram ástæður, sem mjer hafa verið ókunnar.