06.04.1927
Efri deild: 46. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 759 í D-deild Alþingistíðinda. (3731)

92. mál, yfirsíldarmatsstarf á Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Ingvar Pálmason):

Jeg hefi nú heyrt svar hæstv. stjórnar, og verð að segja það rjett eins og það er, að það er dálítið utan við efnið. Hæstv. stjórn telur sig hafa leyfi til þess að setja mann í þetta embætti. eins og öll önnur embætti. Það er enginn, sem hefir neitt á móti því; það er ekkert kvartað undan því, þótt maður sje settur í embætti, heldur undan því, að staðan er lögð niður, og það er kvartað um, að það sje gert í fullkomnu heimildarleysi við lögin, og það er kvartað yfir því, að sá maður, sem á að gegna starfinu, sje látinn sitja á Akureyri, þar sem menn vita, að hann hefið miklum störfum að gegna og getur þar af leiðandi ekki verulega sint þessum störfum á Austfjörðum.

Jeg hefði ekkert haft við það að athuga, þótt hæstv. ráðh. (MG) hefði ekki veitt þessa stöðu, en aðeins sett mann í hana, en jeg held, að ef á að fara þessa leið, sem hjer hefir verið farin, sem gildir sama og niðurlagning stöðunnar, þá sje þó að minsta kosti viðkunnanlegra að breyta lögunum um síldarmat, svo að þau sjeu ekki þverbrotin svo lengi sem hæstv. stjórn þóknast, vegna þess að lögin mæla svo fyrir, að einn yfirsíldarmatsmaður skuli sitja á Seyðisfirði, og það er það ákvæði laganna, sem jeg hefi talið að væri brotið.

Þá kom hæstv. ráðh. að því, að það væri lítil ástæða til að hafa sjerstakan yfirsíldarmatsmann á Austfjörðum, af því að það væri svo lítið veitt af síld þar. Það er ástæða, sem má ræða. Og svo kom hæstv. ráðh. með yfirlit yfir metna síld á Austfjörðum síðastliðin 10 ár. Það yfirlit sýnir, að það hefir verið flutt út síld frá Austfjörðum öll árin nema eitt, og síðastliðið ár var það svo mikið, að hvað sem tollinum líður, þá er það áreiðanlegt, að ef um ljelegt mat er að ræða, þá getur það varðað hlutaðeigendur miklu meira fjárhagslegu tjóni en kaupi síldarmatsmanns nemur.

Jeg sje ekki, að það sje hægt að verja það, að þessi skipun hefir verið gerð, á þeim grundvelli, að síldarútflutningur hafi verið svo lítill, því að það vita allir, að auk þess, að hann var mikill síðastliðið sumar, getur hann aukist, þegar minst varir, eins og líka hefir sýnt sig síðastliðið ár, og þá er orðið of seint að byrgja brunninn, þegar stórtjón hefir af hlotist. Jeg held því, að það sje mjög hæpið, að hæstv. atvrh. hafi leyfi til þess að taka til sinna ráða um opinbera starfsmenn og leggja niður störf, sem stofnuð eru með lögum, og jeg trúi því ekki, að hið háa Alþingi verði honum þakklátt fyrir það, þótt eitthvað kunni að sparast við það; og eitt er víst, að Austfirðingar verða ekki þakklátir hæstv. ráðh. fyrir þessa ráðstöfun, því svo er alment álitið fyrir austan, að stórtjón hafi af henni hlotist. Og sje það tilætlunin að halda þessu áfram, þá er það víst, að hlutaðeigendur láta ekki sitja við þessa fyrirspurn, sem jeg hefi borið fram; þeir munu gera eitthvað til þess að fá hlut sinn rjettan.

Jeg hefi áður í ræðu minni bent á það, að á Austfjörðum er sjerstök þörf á góðu eftirliti, vegna þess, hve saltað er á mörgum stöðum. Hæstv. atvrh. vildi segja, að það mundi ekki verða mikið bætt úr þessu með því, að þar sæti yfirsíldarmatsmaður, því að hann gæti ekki verið á öllum stöðvum, og jeg býst að vísu við því, að þó að skipaður eða settur verði annar yfirsíldarmatsmaður en sá, sem er á Akureyri, þá gæti hann ekki verið alstaðar. En víst er það, að ef hann getur ferðast um vikulega, þá verður eftirlitið miklu tryggara. Auk þess er það mjög hæpið, að undirmatsmenn hafi getað gefið vottorð fyrir þeirri síld, sem út var flutt.

Eitt af því, sem líka var í mikilli óreiðu á Austfjörðum, var skipun undirmatsmanna, því að þeirra hafði ekki verið brýn þörf á undanförnum árum nema á tveimur stöðum, en á síðastliðnu sumri á hverjum firði; þar af leiddi, að ekki voru nema tveir undirmatsmenn til, og það er dálítið erfitt, þegar svo stendur á, að yfirmatsmaður kemur ekki nema aðeins til að benda á hverjir skuli vera undirmatsmenn, að fá reynda og vel hæfa menn til starfans. Þeir geta auðvitað orðið góðir undir eftirliti yfirsíldarmatsmanns, þótt það sje annars erfiðleikum bundið. Jeg vildi mega benda á, að það getur átt sjer stað, þó að hæstv. atvrh. vilji halda því fram, að hjer verði ekki um mikinn síldarútflutning að ræða, að þau ár komi yfir þetta land, að aðalsíldarútflutningurinn verði frá Austurlandi; það hefir verið svo árum saman áður, og það er ýmislegt, sem bendir á, að sá tími sje að nálgast, að síldveiði fyrir Austurlandi fari að aukast. Á síðastliðnu sumri veiddu skip mikið af síld fyrir austan Langanes, og jeg skal líka benda á það, að frá Austfjörðum hafa gengið mörg skip til síldveiða undanfarin ár. Þessi skip hafa hingað til lagt upp á Siglufirði, en nú má telja víst, að þau muni eftirleiðis leggja aflann á land heima hjá sjer, á Austfjörðum, ef veiðin fer að verða svo nærtæk. Vona jeg því, þegar hæstv. ráðh. athugar þetta, að hann haldi ekki fast við, að það beri að leggja niður þetta starf á Austfjörðum, og þó að hann haldi fast við það, þá vona jeg, að hæstv. ráðh. kjósi þá þá leið, að gera það löglega, með því að breyta svo síldarmatslögunum, að það verði í samræmi við þau. Jeg efast reyndar um, að það muni takast, og þá virðist mjer það bersýnilegt, að þessi ráðstöfun hafi verið gerð í óþökk flestra hv. þm., og auk þess skapar hún mjög slæmt fordæmi um það, að stjórnin leyfi sjer að virða að vettugi greinileg fyrirmæli laga.

Jeg vil benda á, að það er sitt hvað, að skipa í stöðu til bráðabirgða, eða að leggja hana alveg niður. (Atvrh. MG: Það var settur maður í stöðuna). Því verður ekki neitað, að hjer var framið lagabrot, því að það stendur í lögunum, að síldarmatsmenn skuli vera fjórir og einn sitja á Seyðisfirði. Hitt er alt annað, þótt maður sje settur í stöðuna, ef hann er búsettur á Seyðisfirði; jeg hefði ekkert við það að athuga, og mjer er það ekkert kappsmál, að staðan sje veitt, en hitt er mjer kappsmál, að hún verði ekki lögð niður, en það hefir verið gert með þeirri ráðstöfun, sem hjer hefir verið átalin.

Jeg geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh. haldi sjer fast við það, sem fram kom í fyrri ræðu hans, að þessi ráðstöfun eigi að gilda áfram. En þá mun jeg verða neyddur til að fara aðra leið en að nota fyrirspurn, því ef það er meiningin að beita vissa landshluta slíku gerræði, þá liggur það í hlutarins eðli, að það verður að fara aðra leið til þess að fá þetta lagfært.