06.04.1927
Efri deild: 46. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 765 í D-deild Alþingistíðinda. (3737)

92. mál, yfirsíldarmatsstarf á Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Ingvar Pálmason):

Það er sennilega þýðingarlítið að ræða þetta mál öllu meir en orðið er. Jeg vil samt, áður en jeg skilst við það, taka það fram, að enn hefir því ekki verið hnekt af hæstv. stjórn nje neinum öðrum, að lögin hafi verið brotin. Þau segja, að síldarmatsmenn eigi að vera 4. Þeir hafa ekki verið 4. Þessu er ekki hægt að neita, og yfir þessu er kvartað.

Hæstv. ráðh. segir, að maður hafi verið settur í þetta starf, og finst hann þá vera laus allra mála. Ef fjórði maður hefði verið settur og hann hefði setið á Seyðisfirði, þá hefði alt verið í lagi. En alt annað mál er það, að setja mann, sem er búsettur á Akureyri og hefir ærið nóg að gera þar, og er auk þess fastur starfsmaður Fiskifjelags Íslands. Sá maður er önnum kafinn og þurfti m. a. að fara til útlanda á síðastliðnu sumri vegna stöðu sinnar hjá Fiskifjelagi Íslands, svo að ekki er hægt að ætlast til, að hann geti auk alls þessa sint matsstarfinu á Austfjörðum.

Mjer virtist hæstv. ráðh. telja fullvel sjeð fyrir síldarmatinu á Austfjörðum með þessari ráðstöfun sinni, og taldi engan búhnykk að hafa þar sjerstakan mann. Jeg tel víst, að hæstv. ráðh. viti, hvað metið var þar síðasta ár. Það voru 9000 tunnur. Hver hefir gefið vottorð um þá síld? Ætli það verði ekki erfitt fyrir mig, sem salta síld á Austfjörðum, að fá vottorð um hana hjá manni á Akureyri, og ætli það verði ekki jafnerfitt fyrir hann að gefa slíkt vottorð, þegar hann hefir ekki sjeð síldina, áður en hún var söltuð?

Hæstv. ráðh. sagði, að jeg hefði haft hótanir í frammi. Það er hinn mesti misskilningur. En jeg hygg ekki, að hæstv. ráðh. taki mikið ofan, þó að hann játi, að rjettara hefði verið að setja mann í þetta starf á Seyðisfirði.

Það kom fram í fyrri ræðu hæstv. ráðh., að laun matsmannsins hefðu öll sparast. Það kann að vera, en jeg hefi grun um, að eitthvað annað hafi komið á móti. Jeg á ekki von á því, að maðurinn á Akureyri ferðist kostnaðarlaust. Jeg býst því við, að sá liður, sem hæstv. ráðh. telur sig hafa sparað, komi fram annarssstaðar sem ferðakostnaður. Að minsta kosti þakka jeg ekki þann sparnað, fyr en hæstv. ráðh. sannar mjer, að hann sje mun lægri en kostnaðurinn við að hafa settan mann á Seyðisfirði, jafnvel þó að engin bein laun hafi verið greidd þeim, sem hann telur að hafi verið settur til að gegna starfinu.

Jeg fæ ekki annað út úr svari hæstv. ráðh. en að hann telji, að þegar honum gott þyki, geti hann virt landslög að vettugi. Jeg geri ráð fyrir, að jeg verði neyddur til að flytja þáltill. síðar út af þessu máli, en hvernig um hana fer, skal jeg ekki segja. En vilji Alþingi staðfesta gerðir hæstv. stjórnar í þessu máli, verð jeg að segja, að þá fer að verða erfitt fyrir vissa landshluta að ná rjetti sínum. Að vísu kæmi mjer það ekki á óvart, þó að svo reyndist nú, sem svo oft áður, að Austfirðir væru hafðir að olnbogabarni.