06.04.1927
Efri deild: 46. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 774 í D-deild Alþingistíðinda. (3744)

92. mál, yfirsíldarmatsstarf á Austurlandi

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg játa það, að jeg er ekki eins mikill „hreppapólitíkus“ eins og hv. 5. landsk. (JBald). Hann má gjarnan leggja mjer það til lasts, en jeg vildi samt ekki skifta við hv. þm. (JBald).

Það er ekki satt, að hæstv. stjórn hafi dregið mig á því að rannsaka vegarlagningu yfir Fjarðarheiði. Drátturinn, sem varð, er vegamálastjóra að kenna.

Á þinginu 1923 var það felt, að leggja niður yfirsíldarmatsmannsstarfið á Seyðisfirði, en stjórnin hefir heldur ekki lagt það niður, eins og hjer hefir verið tekið fram; aðeins hefir þessi sýslan verið starfrækt á sama hátt og á sjer stað um margar aðrar sýslanir, og jeg verð að telja, að þegar sú ráðstöfun var gerð, þá hafi eftir undanfarandi ára reynslu sú ráðstöfun verið fullforsvaranleg. Og jeg tel það líka víst, að gerð verði breyting á þessu þegar á næsta sumri, ef þörf verður fyrir sjerstakan yfirmatsmann þar. Og eins og jeg tók fram áðan, þá hefir ekkert verið gert í málinu, sem geti hindrað það.

Jeg er nú ekki eins grimmur stjórnarandstæðingur eins og hv. sessunautur minn (JBald), og þess vegna dettur mjer ekki í hug að efast um, að hæstv. stjórn muni setja sjerstakan yfirsíldarmatsmann á Austfjörðum, ef mikið útlit verður fyrir síldarútflutning þaðan á næsta sumri.