13.05.1927
Efri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (3750)

10. mál, heimavistir við Hinn almenna menntaskóla

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Mentmn. hefir ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þessa máls, þar sem meiri hl. vill, að það nái fram að ganga, en minni hl. leggur til, að það verði felt. Í nál. háttv. meiri hl. er ekki farið út í einstök atriði, en sagt, að rektor mentaskólans leggi með frv. þessu.

Þar sem hæstv. kenslumálaráðh. er hjer viðstaddur nú, þá vildi jeg leyfa mjer að beina til hans nokkrum spurningum, úr því að hann gat ekki mætt á nefndarfundi með okkur.

Jeg gat ekki skilið rektor öðruvísi en svo, að frv. Þetta hefði aldrei verið borið undir hann, og að hann hefði ekki beðið um, að það væri borið fram. Hann hefir aftur beðið um dálitla fjárhæð í húsaleigustyrk handa utanbæjarnemendum, en eftirspurnin eftir þessum styrk frá hálfu nemenda hefir ekki verið meiri en það, að hann hefir stundum ekki gengið allur upp. Þetta meðal annars sýnir, að þörfin fyrir heimavist er ekki svo knýjandi, að nauðsyn reki til, að reisa þetta dýra heimavistahús.

Það er nú öllum almenningi kunnugt, að hæstv. stjórn ber skólamálin ekki mjög fyrir brjósti, heldur er þvert á móti andvíg allri sannri mentun. Hjer hlýtur því annað og meira að liggja á bak við en áhugi hennar fyrir málefninu sjálfu, þegar hún alt í einu hleypur til, að koma með frv. þetta bak við rektor skólans. Hvernig á þessu gönuhlaupi. stendur, vildi jeg biðja hæstv. ráðherra að upplýsa.

Þá er önnur spurningin. Hvers vegna leggur stjórnin ekki neina teikningu eða sundurliðaða áætlun fyrir þingið, eða að minsta kosti fyrir nefndir þær, sem um málið eiga að fjalla. Að vísu hefi jeg heyrt, að til væru lausir frumdrættir og lausleg áætlun, en hvorugt hefir nefndin sjeð. Þá hafa engar tillögur komið fram um það, hvernig húsi þessu skuli fyrir komið. Alt er óákveðið með fyrirkomulag, herbergjastærð og herbergjatölu. Ekkert sagt um það, hvort t. d. sjerstakur salur eigi að vera til þess að lesa í, eða hvort herbergin eigi að vera fyrir einn eða tvo menn. Hæstv. stjórn virðist því hafa komið með frv. þetta í svo miklum flýti, að hún hafi ekki athugað hina allra sjálfsögðustu hluti í sambandi við það, t. d. um lóð undir húsið. Að vísu var fyrst gert ráð fyrir, að það stæði á skólalóðinni, en svo upplýstist, að það var ekki hægt, heldur yrði að hafa húsið einhversstaðar annarsstaðar, og má vel vera að kaupa verði dýra lóð undir það. Í einu orði sagt: frv. var svo mikill grautur og er enn, að engin leið er að samþykkja það.

Þessu heimavistarmáli við mentaskólann hjer skaut fyrst upp í þinginu í sambandi við kröfur Norðlendinga um mentaskóla á Akureyri. Á þinginu 1923 báru tveir þingmenn fram frv. um sjerstakan mentaskóla á Norðurlandi, og mun mentamálaráðherra sá, sem nú er, hafa þá þegar, ásamt fleirum, látið í ljós, að nær væri að byggja heimavist við mentaskólann hjer, heldur en gera Akureyrarskóla að sjerstökum mentaskóla. Svo var þessu hreyft aftur af manni, sem ekki á sæti á þingi nú. Og að lokum kemur hæstv. stjórn fram með þetta frv., án þess að hafa hinn minsta áhuga fyrir skólamálum yfirleitt, og án þess að nokkur knýjandi ástæða liggi fyrir, sem rjettlæti það, að bera slíkt mál fram nú, nje að yfirmaður skólans hafi beðið um þessa forgöngu.

Hjer liggur því eitthvað á bak við, sem óneitanlega virðist vera það, að hindra, að Norðlendingar og Austfirðingar fái sjerstakan mentaskóla. En það verð jeg að telja harla undarlegt hjá hæstv. atvrh., sem er þingmaður þess hjeraðs, sem mikinn áhuga hefir fyrir þessu skólamáli Norðlendinga, sem heldur er ekki að undra, þar sem það um langt skeið hafði sjerstakan skóla, að hann skuli vera forgöngumaður í því, að spilla fyrir norðlenskum mentaskóla. Nú vil jeg spyrja hæstv. kenslumálaráðherra, að hvaða gagni hann haldi, að heimavistin við mentaskólann hjer komi, þegar Norðurland hefir fengið mentaskóla, því að það er áreiðanlegt, að hann kemur, hvað sem íhaldið segir nú í vetur. Það sýnir öll saga málsins frá því fyrsta, að Stefán sál. Stefánsson steig fyrstu og erfiðustu sporin. Þess ber og að gæta, að neðri deild mentaskólans hjer er aðeins fyrir börn úr Rvík, því að aldurstakmarkið útilokar alla þroskaða menn frá skólanum, eða frá að nema í þeim deildum, og hingað eru ekki send ungmenni utan af landi, nema undir þeim kringumstæðum, að foreldrarnir eigi venslamenn hjer. Hæstv. ráðh. (MG) hlýtur því að sjá, að hjer er mikill aðstöðumunur. Á Norðurlandsskólann geta menn sent syni sína og dætur, þegar það er orðið þroskað fólk, sem ekki þarf að verja nema í mesta lagi 5 árum til þess að lesa undir stúdentspróf. Það liggur því í augum uppi, að þangað sækir fólkið utan af landsbygðinni, en heimavistin við mentaskólann er að engu gagni, vegna neðri bekkjanna.

Í sambandi við þetta vil jeg geta þess, að maður einn á Akureyri hefir það eftir hinum látna forsætisráðherra, Jóni Magnússyni, að hann hafi í síðustu ferð sinni í sumar sagt, að Akureyrarskólinn yrði gerður að mentaskóla á 50 ára afmæli sínu, sem er 1930. Jeg sel þetta ekki dýrara en jeg keypti. En þetta er í fullu samræmi við það, sem aðrir búast við, og jafnvel telja, víst.

Þá vildi jeg snúa máli mínu til hæstv. atvrh. (MG) og háttv. 2. landsk. (IHB) um eitt atriði, og það er, hver áhrif þau telji, að slík fjárveiting, sem Þarf til þess að koma upp byggingu eins og þessu heimavistahúsi, gæti haft á byggingu landsspítalans, þar sem það er upplýst, að hann verður ekki hygður nema með lánsfje. Mjer þætti vænt um að heyra frá þeim, hvernig þau líta á þessa hlið málsins.