08.03.1927
Neðri deild: 24. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 896 í C-deild Alþingistíðinda. (3754)

53. mál, strandferðaskip

Jón Kjartansson:

Jeg hygg, að það sje nálægt 350 þús. kr., sem ríkið leggur árlega til strandferða. Þó að það sje mikið fje, væri ekkert við því að segja, ef góðar samgöngur kæmu á móti. Við getum ekki búist við að fá góðar samgöngur á sjó meðfram ströndum landsins, án þess að kosta miklu fje til. Strandlengjan er löng, strjálbygðin mikil og viðkomustaðir strandferðaskipanna margir, en flutningur oft lítill á hvern stað. En 350 þús. kr. er líka mikið fje, og áður en ráðist er í að bæta við annari upphæð jafnhárri, er rjett að athuga, hve vel er varið fje því, sem fer til stranderða. Ef í ljós kæmi, að því væri ekki allskostar vel varið, væri full nauðsyn á að kippa því í lag. Jeg hygg, að við nánari athugun muni sjást, að mikið vantar á, að öllu því fje, sem veitt er til strandferða, sje vel varið.

Hv. þm. A.-Sk. er einn meðal flm. þessa frv. Jeg get vel skilið, að svo er, því að Hornafjörður hefir ætíð orðið mjög útundan að því er strandferðir snertir. En það er ekki eingöngu Alþingi að kenna. Það er ekki langt síðan að Alþingi reyndi að bæta úr samgönguvandræðum við Hornafjörð, með því að leggja 8000 kr. til Austfjarðabáts. Jeg veit ekki til, að hann hafi komið fram, sem slíkur. Fjeð mun hafa verið afhent sýslunefnd og hún úthlutað því til tveggja atvinnurekenda á staðnum, er síðan skyldu halda uppi stöðugum ferðum. En það er auðskilið, að samgöngur geta aldrei orðið góðar þarna, ef ekki er annað fyrirkomulag haft á ferðum þessum. Jeg skal geta þess, að upphæðinni til Hornafjarðarbáts hefir verið skift þannig, að Þórhallur Daníelsson á Hornafirði mun hafa fengið 3000 kr., en Kaupfjelag Austur-Skaftfellinga 5000 kr. Mjer er tjáð, að Þórh. Daníelsson hafi haldið uppi sæmilega reglubundnum ferðum vikulega um alla Austfirði, um tímabilið febr.–júlí, farið alls um 30 ferðir. Virðist hann því ekki ofsæll af sínum hluta styrksins. En um kaupfjelagið er mjer tjáð, að það hafi haldið uppi ferðum aðeins um einn mánuð að haustinu til, októbermánuð. það hafi farið 4–5 ferðir, og þá aðeins til Fáskrúðsfjarðar. Ef hjer er rjett frá skýrt, er engin furða, þó að kvartað sje. Jeg vil beina því til hv. samgmn. og hæstv. stjórnar að athuga þetta mál.

Um strandferðirnar yfirleitt mætti margt segja, og margt þarf þar lagfæringar við annað en þetta, sem jeg hefi nefnt. Við fáum aldrei góðar samgöngur með ströndum fram fyr en við afhendum Eimskipafjelaginu þær að öllu leyti. Við höfum eins og stendur eitt strandferðaskip, sem ríkið á, en Eimskipafjelagið annast útgerð á. Auk þess höfum við eina 10 flóabáta og líklega jafnmarga útgerðarstjóra. Þetta getur aldrei blessast. (TrÞ: Þjóðnýting!). Skipulag getur verið gott, þótt ekki sje það þjóðnýting. Og þarna held jeg einmitt að ríkið ætti að afsala sjer sínum hlut í hendur Eimskipafjelagsins. Strandferðirnar verða aldrei í góðu lagi, fyr en Eimskipafjelagið tekur þær að fullu í sínar hendur. — Jeg get búist við, að einhver kunni að halda því fram, að fækka megi flóabátum, ef bætt sje við strandferðaskipi. En jeg tel mjög vafasamt, að það verði hægt. Flóabátarnir eru einmitt framtíðar-strandferðatækin. Þess verður að gæta, að breyting á millilandaflutningi hefir gerbreytt þörfunum til strandferða. Áður var það svo, að Reykjavík var nálega eina höfnin á landinu, sem aðalmillilandaferðirnar voru bundnar við. Þarfir manna í öðrum landshlutum miðuðust þá fyrst og fremst við það, hversu góðar samgöngur þeir höfðu við Rvík. Nú er þetta gerbreytt. Nú hafa hafnir út um land tekið mikið af millilandaflutningunum, svo að hjeruðunum er meiri nauðsyn á greiðum samgöngum við útflutningshöfn sína heldur en við Rvík. Og það er hlutverk flóabátanna að annast þær samgöngur.

Jeg held, að það væri fljótræði að ráðast í byggingu strandferðaskips, sem bæði mundi kosta mikið fje og verða dýrt í rekstri. En skipulagið með flóabátana getum við ekki komist hjá að bæta. Tilgangur minn, er jeg stóð upp, var sá, að beina því til hv. samgmn. og hæstv. stjórnar að lagfæra það, sem miður hefir farið um rekstur flóabáta. Jafnframt vil jeg beina þeirri fyrirspurn til hæstv. atvrh., hvort ekki sje regla, að stjórninni sjeu gefnar skýrslur um rekstur flóabáta.