02.05.1927
Neðri deild: 64. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í C-deild Alþingistíðinda. (3773)

97. mál, gin- og klaufaveiki

Björn Líndal:

Mjer heyrðist á háttv. frsm., að honum væri illa við þetta pex um þetta mál. Þó verð jeg að leyfa mjer að segja, að megnið af því, sem hann og aðrir hv. þm. hafa hjer haft fram að færa, er pex af verstu tegund. Gagnslaust pex um auðskilin orðatiltæki, útúrsnúningar og hártoganir eiga ekki að líðast á Alþingi. „Með ráði einhvers“ getur ekki þýtt annað en að sá maður verði að leggja til, að það sje gert, sem leitað er ráða um, til þess að heimilt sje að lögum að gera það. Þetta orðatiltæki er á tveim stöðum í þessu frv. Er það meining hv. flm., að atvrh. megi banna innflutning á þessum vörum, þótt dýralæknir leggi á móti? En líklega hljóta orðin að þýða hið sama í þessu frv. og í lögunum frá í fyrra.

Hv. frsm. beindi þeim orðum til hæstv. atvrh., að hjer ætti ekki við að tala um það, hvað hræðast þyrfti, heldur hitt, að allur varinn væri góður. En það verður þó að vera eitthvert skynsamlegt hlutfall á milli hættunnar annarsvegar og þess kostnaðar, sem lagður er í sölurnar og því persónulega frelsi, sem fórnað er hinsvegar, til þess að varast hana. Það getur gengið of langt, ef altaf á að sigla fyrir öll hættusker. Einhver takmörk verða þar að vera. Ófrelsispostular geta altaf blásið upp einhverja hættu til að koma fram þvingunarlöggjöf. Slíks eru mörg dæmi áður. — Jeg skal benda á eitt eða tvö atriði, til að sýna, hve langt hjer er gengið. Hv. flm. vilja banna innflutning á ull og dún frá þeim löndum, þar sem alidýrasjúkdómar eru landlægir. Hafa þeir ekki komið auga á, að vel getur farið svo, að þau lönd svari í sama dúr, sem verða fyrir barðinu á þessari löggjöf? Hjer á landi eru tveir alidýrasjúkdómar, sem vel mætti nota að yfirvarpi til að setja strangar reglur, eða jafnvel bann, gegn innflutningi á ull og dún hjeðan, a. m. k. ef við eigum upptökin. Það er gamall og góður siður í heiminum að gjalda líku líkt. Því megum við ekki flana að neinu í þessu efni. Það getur leitt af sjer ýmislegt, sem við megum ekki við.

Þá eru ákvæði 4. gr. Jeg held að ástæða sje til að athuga vandlega, hvaða ákvæði nágrannaþjóðir okkar hafa sett um þessi efni, áður en við flönum að nokkru. Jeg held yfirleitt, að við getum aldrei farið of varlega í löggjöf okkar gagnvart nágrannaþjóðunum. Við megum ekki hætta okkur svo langt, að við verðum að taka sumt af því aftur innan skamms tíma, eins og raunin hefir orðið á með bannlögin gagnvart Spánverjum.