24.03.1927
Sameinað þing: 4. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í D-deild Alþingistíðinda. (3774)

88. mál, stúdentspróf við Akureyrarskóla

Björn Líndal:

Þetta mál hefir frá upphafi verið sannkallað vandræðamál. Frá því fyrsta það kom fram hjer á þinginu 1924, hefi jeg verið þeirrar sömu skoðunar, að þar hafi verið lagt út á mjög óheppilega braut, þá braut, að gera þetta smámál að pólitísku æsingamáli. Það kom þinginu ekkert við, heldur aðeins stjórninni, því að þá var aðeins að ræða um að fá að láni eina stofu í gagnfræðaskólahúsinu á Akureyri til framhaldsnáms. Þetta gat stjórnin leyft án þess að spyrja þingið um, enda var því lýst yfir af kenslumálaráðh., að auðsótt mundi að fá þetta leyfi. Nú er hjer lagt ennþá lengra út á sömu óhappaleið og jafnvel svo langt gengið, að ætlast er til þess, að þingið brjóti landslög, með því að leyfa það í þingsályktunartillöguformi, sem landslög banna.

Um þessa hlið málsins ætla jeg ekki að fara fleirum orðum að sinni, þótt full ástæða sje til. En jeg vil vekja athygli á því, að það verða mikil vonbrigði fyrir þessa pilta að fá þetta svar, því að þeim hafa verið gefnar góðar vonir um, að þeir fengju að taka stúdentspróf fyrir norðan. Þessir piltar eru fátækir en efnilegir.

Að öllu þessu athuguðu legg jeg til, að þeim sje einhver greiði gerður, og ljett undir með þeim til að taka prófið í Reykjavík. Er það að vísu hættulegt fordæmi að styrkja þessa pilta til slíks af ríkisfje, því að ekki getur komið til mála að veita slíkan styrk eingöngu ungum mönnum, sem stunda framhaldsnám á Akureyri í einhverju sambandi við gagnfræðaskólann þar, en ekki utanskólamönnum annarsstaðar frá.

Jeg ætla því að koma fram með rökstudda dagskrá þess efnis, að heimilað verði að greiða af ríkisfje eitthvað af ferðakostnaði þessara ungu manna hingað til Reykjavíkur í þessum erindum. En jafnframt legg jeg mikla áherslu á það, að þótt þessi styrkveiting verði leyfð í þetta sinn, þá sje þar með ekki gefið neitt fordæmi fyrir slíkum styrkveitingum framvegis. Jeg ætla svo að leyfa mjer að lesa upp þessa dagskrá:

Í trausti þess, að ríkisstjórnin sjái sjer fært að greiða að einhverju leyti ferðakostnað fátækum og efnilegum nemendum, er stundað hafa undirbúningsnám undir stúdentspróf við Akureyrarskóla, og hingað koma til Reykjavíkur til þess að taka stúdentspróf á næsta vori, tekur þingið fyrir næsta mál á dagskrá.