25.03.1927
Efri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

98. mál, rannsókn banameina og kennslu í meina- og líffærafræði

Flm. (Jónas Kristjánsson):

Eins og greinargerðin ber með sjer, er frv. þetta komið fram samkvæmt ósk læknadeildar háskólans. Fer það fram á, að sjerfræðingur skuli rannsaka banamein sjúklinga, sem deyja í sjúkrahúsum, er ríkið rekur.

Með frv. mælir fyrst og fremst það, að það er gróði fyrir læknavísindin að vita fyrir víst, hver er dánarorsök sjúklinga, hvort hún er í samræmi við það, sem læknar sjúklingsins hafa álitið. Þetta hefir því mjög mikla þýðingu. Hjer um bil í hverju landi eru lög um, að krufin skuli öll lík sjúklinga, sem deyja í ríkisspítölum. Þetta er líka mjög nauðsynlegt vegna læknanema, svo að þeir geti fengið tækifæri til að kynnast sem flestum sjúkdómum og meinsemdum, er leiða til dauða. Málið snertir því allan almenning. Því betri tækifæri sem læknaefni fá til að fullkomna sig í starfi sínu, því meira gagns má af þeim vænta, þegar þeir fara að starfa meðal almennings.

Jeg sje ekki ástæðu til að tala um þetta langt mál. Jeg veit, að hv. deild er ljóst, hvað með þessu er meint og hve þýðingarmikið mál þetta er. Að sjálfsögðu yrði með reglugerð ákveðið nánar, hvernig þetta skyldi framkvæmt.

Jeg bið hæstv. forseta að stinga upp á, hvaða nefnd skuli fá málið til meðferðar.