10.03.1927
Neðri deild: 26. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

31. mál, varnir gegn sýkingu nytjajurta

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Eins og sjá má á greinargerð þessa frv., þá eru fyrstu drögin til þess þau, að á síðari árum hefir orðið töluvert vart við skæðan sjúkdóm í kartöflum í nágrannalöndum þeim, sem við skiftum mest við í þeim efnum. Búnaðarþing það, sem síðast var háð, tók mál þetta til athugunar og bar það undir þá sjerfræðinga hjer, sem best skyn bera á þessa hluti, og komst það svo að þeirri niðurstöðu, að þörf væri á að setja varnir gegn því, að þessir eða aðrir sjúkdómar í nytjajurtum flyttust til landsins. Er það því eftir tillögum vorra vitrustu manna á þessum sviðum, að frumvarp þetta er flutt.

Mál þetta þarf ekki mikilla skýringa við. Það liggur í hlutarins eðli, hve hættulegt það er, ef slíkir sjúkdómar í nytjajurtum flytjast hingað. Er því nauðsynlegt að heimila stjórninni að setja varnir gegn því. Frv. þetta á því að verða heimildarlög. Það er samið af garðyrkjustjóra, og hefir nefndin ekki fundið ástæðu til þess að breyta því verulega að efni til; þó ber hún fram eina efnisbreytingu við það. Hún er sú, að fult verð komi fyrir, ef ráðstafanir þessar komast á og nauðsyn ber til þeirra vegna að eyðileggja eitthvað af uppskeru manna. En í frv. er ekki gert ráð fyrir nema 3/4 hlutum verðs.

Þá hefir nefndin gert tillögur um nokkrar orðabreytingar á frv., og vænti jeg þess, að háttv. deildarmenn átti sig á því, að þær breyta efni þess ekkert, en gera málið einfaldara og ljósara. Garðyrkjustjóri lagði til, að fyrirsögninni væri breytt á þann veg, sem nefndin leggur til. Þá fór hann og fram á það, að trjáplöntur væru taldar upp meðal nytjajurta, en nefndin taldi enga þörf á því, aðeins að skýrt væri tekið fram í framsögu málsins, að þær teldust þar undir. Jeg vil því beina athygli hv. deildarmanna að því, að nefndin telur trjáplöntur geta heyrt undir þessar nytjajurtir.

Álít jeg svo ekki þörf að ræða málið frekar, því eins og jeg tók fram áðan, er það búið í hendur þingsins af þeim mönnum, sem best skyn bera á þessa hluti.