07.03.1927
Efri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 269 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

68. mál, sýsluvegasjóður

Einar Árnason:

Eins og kunnugt er og hv. 6. landsk. (JKr) tók fram, er með lögum um sýsluvegasjóði frá 1923 gert ráð fyrir, að sýsluvegasjóðir fái tekjur sínar af fasteignum innan hverrar sýslu. Þessi skattur á að greiðast af ábúanda hverrar jarðar í sveitum, en eigendum lóða í kauptúnum. Litlu eftir að lögin gengu í gildi tók að bera á óánægju útaf því, hvernig þessu var fyrir komið, og varð það til þess, að 1924 var samþykt heimild handa hreppsnefndum til að jafna þessum skatti niður eftir efnum og ástæðum, eins og útsvörum. Þessi heimild var bundin því skilyrði, að 2/3 hreppsbúa samþyktu. En það eru ekki nema tiltölulega fáar sýslur á landinu, sem hafa notað þessa heimild, og í sumum sýslum fylgja ekki allir hrepparnir sömu reglum. Sumir jafna gjaldinu niður eftir efnum og ástæðum, en aðrir fara eftir ákvæðunum í lögunum frá 1923. í þessu kemur fram ósamræmi milli einstakra hreppa. — Nú fanst mjer hv. flm. (JKr) vilja halda því fram, að sanngjarnast og rjettast væri að jafna gjaldinu niður eftir efnum og ástæðum. Jeg er honum alveg sammála um þetta. Jeg hefi altaf álitið þá leið miklu rjettari. Hv. flm. hefir fært mjög skýr rök fyrir því, hve ranglátt er að taka skattinn samkv. lögunum frá 1923. Og jeg geri ráð fyrir, að hann hafi viljað greiða fyrir því, að farið yrði hina leiðina. En mjer finst frv. ekki ná þeim tilgangi sínum eins og það liggur fyrir. Frv. stefnir aðallega að því að reyna að ná til fleiri fasteigna en lögin frá 1923 gera ráð fyrir. í greinargerðinni eru nefnd ungmennafjelög, málfundafjelög, templarastúkur o. fl. fjelög, sem eigi fasteignir, en sleppi við að greiða skatt. Þó svo sje, álít jeg það ekki aðalatriði, og hvað ungmennafjelögin snertir, skiftir það ekki miklu máli, hvort húseignir þeirra eru teknar með. Venjulega mun það vera svo, að hús þeirra sjeu reist af vanefnum og í skuld, en þó af mikilli þörf á að eiga hæli fyrir fundi sína. Mjer finst ekki rjett að leggja mikla áherslu á að skattleggja hús, sem þannig eru til komin. Þá er minst á, að húseignir og lóðir, sem samvinnufjelög eiga í kauptúnum hjer og þar, sleppi við þennan skatt. Hjá því má hæglega komast með því að fara dálítið aðra leið en frumvarpið leggur til. Það þarf ekki annað en að lögfesta, að þótt sýsluvegasjóður fái skattinn eftir fasteignamati, skuli jafna honum niður eftir efnum og ástæðum. Heimild sú, sem gefin var 1924 um að 2/3 hreppsbúa gætu ákveðið, að þessu skyldi svo fyrir komið, hefir ekki komið til framkvæmda nema sumstaðar, vegna þess, að þeir hafa verið í meiri hluta, sem búið hafa í ljelegum húsakynnum, og notað þá aðstöðu sína til þess að letta af sjer skatti og koma honum yfir á þá, sem lagt hafa í kostnað til að bæta húsakynni fyrir sig og eftirkomendur sína, þótt sumir þeirra væru alls ekki betur efnum búnir en hinir, sem í engan kostnað hafa lagt til húsabóta.

Jeg sje ekki neina knýjandi ástæðu til að hafa sömu reglur um niðurjöfnun gjaldsins heima í hreppunum eins og sýslunefndir hafa, þegar þær jafna niður á þá. Það er kunnugt, að sýslusjóðsgjaldi er jafnað niður á hreppana eftir alt öðrum reglum en þeir nota. Þegar þeir jafna niður innbyrðis hjá sjer. Í hreppunum er farið eftir efnum og ástæðum. Mjer finst, að hjer geti gilt sömu reglur og um sýslusjóðsgjöld. Annars þykir mjer vænt um, að frv. er fram komið og vænti þess, að það verði vel athugað í nefnd.