07.03.1927
Efri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í B-deild Alþingistíðinda. (454)

68. mál, sýsluvegasjóður

Einar Jónsson:

Jeg get ekki látið hjá líða að lýsa því yfir, að jeg er ósamþykkur þeim, sem vilja láta jafna þessum skatti niður með öðrum sveitargjöldum, eða eftir efnum og ástæðum. Þar, sem jeg þekki til, fer það venjulega eftir getu manna en ekki vilja, hvernig húsakynni þeir hafa. Og það væri í meira lagi ranglátt að láta þá, sem neyðast til að búa í ljelegum húsakynnum, greiða skatt fyrir hina, sem hafa ráð á að búa í góðum húsum.

Annað væri rjettlátara, sem sje það, að skatturinn væri ekki jafnhár af jörðum og húseignum. Varlega held jeg að fara verði í það að leggja fleiri húseignir undir þennan skatt en nú er. Þótt templarastúka t. d. eigi sjer einhvern kofa, held jeg að veganotkun hennar til aðflutninga sje varla svo mikil, að ástæða sje til skattlagningar. Hún slítur a. m. k. ekki veginum með flöskuflutningum. Það væru helst húseignir samvinnufjelaga, sem til mála gætu komið, því að þeim fylgir venjulega allmikil flutningaþörf.

Jeg óska, að nefndin athugi vandlega, hve miklum annmörkum er bundið að jafna þessum skatti niður eftir efnum og ástæðum, því að vel getur farið svo, að hinir fátæku verði þá að borga fyrir hina ríku.