07.03.1927
Efri deild: 21. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

68. mál, sýsluvegasjóður

Flm. (Jónas Kristjánsson):

Jeg gæti fært mörg dæmi til þess, hve þessi skattur kemur ranglátlega niður þar, sem hann er lagður á fasteignir, en ekki jafnað einnig niður eftir efnum og ástæðum. Jeg skal nefna prestssetur, sem bygt var upp í Skagafirði fyrir 30 þús. kr. Það er mikil blóðtaka að gjalda þann skatt, sem af því mætti heimta. — Jeg tel yfirleitt rjett að sýna þeim mönnum fremur hlífð, sem leggja í ærinn kostnað og hleypa sjer í skuldir með því að bæta húsakynni sín.

Ef lagður væri hærri skattur á jarðeignir en húseignir, myndu kauptúnabúar sleppa vel. En þá er þessu máli fyrst í óefni komið, ef hver og einn reynir að koma byrðunum af sjer yfir á aðra. Þetta verður því hin rjetta leið, að hver greiði eftir sinni getu.