25.02.1927
Neðri deild: 15. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

39. mál, umboð þjóðjarða

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Frv. á þskj. 47 er bæði einfalt og óbrotið. Vænti jeg þess vegna, að láta megi að mestu nægja greinargerðina, sem fylgir því. En nokkrum orðum finst mjer þó rjett að bæta við hana.

Með lögum frá 1913 var svo ákveðið, að þjóðjarðaumboðin fornu skyldu niður lögð jafnótt og þau losnuðu, en eftirstöðvarnar af jarðagóssi þeirra afhentar hreppstjórum á hverjum stað til eftirlits undir umsjón sýslumanna. Þetta var auðvitað gert vegna þess, að þá var búist við, að meginið af þjóðjörðunum mundi verða selt, samkv. þjóðjarðasölulögunum frá 1905, enda var þá mikill skriður kominn á sölu þjóðjarðanna.

Samkvæmt þessum lögum frá 1913 mun nú vera búið að leggja niður öll hin fornu umboð, nema tvö. Það er: Arnarstapa- og Skógarstrandarumboð vestra og Múlasýsluumboð eystra. Fjórum árum síðar en þessi lög voru gefin út, eða 1917, kom fram frv. hjer á Alþingi um undanþágu frá þeim, sem sje um að undanþiggja Arnarstapa- og Skógarstrandarumboð og skipa þar framvegis umboðsmann. Og frv. þetta varð að lögum. Ástæðurnar fyrir því að halda áfram þessu umboði voru þær fyrst og fremst, að í því voru og eru nokkrar fjölbýlisjarðir, sem sýnt þótti, að skiftast mundu margra á milli, og þess vegna hagfeldara að hafa undir eins manns eftirliti en margra. Voru fjölbýlisjarðir þessar — að mig minnir — einkum taldar við Ólafsvík og Sand, en ef til vill við fleiri verstöðvar á Snæfellsnesi.

Nú var, eins og kunnugt er, svo ákveðið í þjóðjarðasölulögunum frá 1905, að ekki skuli þjóðjarðir selja, ef sjáanlegt er — eða líkur til — að þær þurfi að nota í opinberar þarfir, nje heldur þær jarðir, sem líklegar eru til sundurskiftingar og fjölbýlis.

Á þeim tíma, sem liðinn er síðan þjóðjarðasölulögin komu í gildi, hefir sú breyting orðið, að víða hefir komið upp fjölbýli á sjávarjörðum, þar sem áður var fáment, en annarsstaðar risið upp þorp eða verstöðvar. Slík breyting hefir komið fyrir á nokkrum þjóðjörðum eystra.

Mjer virðist þess vegna, að nú liggi öll þau sömu rök til að undanþiggja Múlasýsluumboð ákvæðum laganna frá 1913, sem lágu til þess að gera undanþáguna um Arnarstapaumboð 1917. En við þetta bætist ennfremur sú ástæða, að nú er nauðsynin á hagfeldri ráðstöfun lands til ræktunar og nýbýla nærri kaupstöðum orðin meira aðkallandi en var fyrir 10 árum, auk þess sem framkvæmd ýmsra ákvæða í 5. og 6. kafla jarðræktarlaganna frá 1923 hlýtur að verða erfiðari og ósamræmilegri, ef eftirlit jarðanna verður hjá mörgum mönnum í stað eins.

Við meðferð þessara eigna getur margt til greina komið.

Eins og greinargerð frv. getur um, eru í Múlasýsluumboði 4 jarðir, sem þetta tekur einkum til, 3 sem liggja við kauptún, en 4. jörðin er úttangaverstöð að fornu og nýju, Vattarnes. Fjölbýlisjarðirnar, sem kauptún eru reist á, eru Nes í Norðfirði, Kollaleira við Reyðarfjörð og Kappeyri við Fáskrúðsfjörð. Á þremur þessum jörðum, Vattarnesi, Kollaleiru og Kappeyri, hafa verið á síðustu árum leigðar út um 30 lóðir til húsabygginga og túnræktar. Eftirgjaldið eftir þær er ekki ýkjamikið, enda eru jarðirnar í fastri byggingu og fá því ábúendur 1/4 eða 1/2 flestra lóðargjalda. Alls nemur þó eftirgjald þeirra í ríkissjóð nálægt 530 krónum.

Á Nesi einu munu leigðar um 130 lóðir, en meiri hluti þeirrar jarðar er einstakra manna eign, og nema lóðargjöld ríkissjóðs þaðan árlega um 250 kr. Að mínu áliti skiftir það ekki miklu máli, þegar rætt er um meðferð þessara eigna, hvort ríkissjóður fær nokkrum hundruðum króna meira eða minna í tekjur af þeim. Enn síður skiftir máli, hvort ríkissjóður greiðir 6% í umboðslaun, eins og hreppstjórum er ætlað, eða 10%, eins og hjer er lagt til, ef fastur umboðsmaður verður skipaður. Mestu skiftir, að hyggilega og samræmilega sje með eignirnar farið, og að sem flestir geti fengið land til ræktunar. Ræktaða landið út frá kauptúnum og verstöðvum mun reynast öruggasta tryggingin í harðæri og atvinnuþröng. Á öllum þessum stöðum, sem jeg hefi nefnt þarna við sjóinn, er landið takmarkað, og þó einkanlega á Nesi. par er búið að nema mest alt ræktanlegt land. Hinsvegar er mikið land eftir óyrkt á Kollaleiru og talsvert á Kappeyri. Jeg hefi farið með Múlasýsluumboð síðastliðin 18 ár, og allur fjöldi lóðanna hefir verið leigður á þeim tíma. Jeg þykist því hafa fengið nokkra reynslu fyrir því, hvert stefnir um hagnýting lands út frá þorpum og þjettbýli. Þess verður t. d. þar að gæta, að landsnotin lendi ekki um of í höndum einstakra manna. Jeg þekki viðleitni manna til þess að ná umráðum yfir stórum spildum, þar sem land er takmarkað og fyrirsjáanleg verðhækkun þess; en því verður að aftra og landið verður fyrst og fremst að vera tiltækilegt til smábýla og stuðnings þeim, sem stopula atvinnu hafa. Jeg get ekki vænst þess, að þetta umboð verði í mínum höndum öllu lengur; en jeg tel að öllu haganlegra, eftir reynslu minni, að einn maður hafi eftirlit með þessum eignum, undir umsjón ráðherra, en að því verði sundrað.

Jeg vil vona, að ekki komi hjer fram jafnfáránleg mótbára gegn þessu máli eins og 1917, er það var borið fram í brtt. við undanþáguna um Arnarstapaumboð og felt. Þá var því hreyft, að með till. væri hlaðið undir hagsmuni mína eða einstakra manna. Öllum hlýtur þó að skiljast, að lög eins og hjer er stofnað til koma fyrst til framkvæmdá þegar jeg er kominn undir græna torfu og geta því ekki snert mig hagsmunalega.

Þetta mál er svo einfalt, að það ætti ekki að þurfa að fara í nefnd. En ef hv. deild óskar heldur að því sje vísað til nefndar til betri athugunar, þá vil jeg leggja til, að því verði vísað til allshn.