18.05.1927
Efri deild: 78. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

39. mál, umboð þjóðjarða

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Ástæðan til þess, að þetta mál er ekki fyr á ferð heldur en nú, er sú, að skrifari deildarinnar gleymdi að koma málinu á framfæri til allshn. Hún vissi það því ekki fyr en fyrir 2–3 dögum, að málinu hefði verið vísað til hennar. Jeg upplýsi þetta sökum þess, að annars gæti hv. deild haldið, að nefndin hefði ætlað að leggjast á málið og svæfa það, en síðan verið rekin til þess að koma með það í þinglokin. En þannig er það ekki.

Í greinargerð frv. eru teknar mjög skýrt fram ástæður fyrir þessu frv., og get jeg að mestu vísað til þeirra. Nefndin áleit, að þarna stæði nokkuð sjerstaklega á og gæti verið í þessu tilfelli þörf að hafa sjerstakan umboðsmann, vegna þeirra ástæðna, sem í greinargerðinni getur. Það eru nefnilega verslanir á sumum jörðunum, og er þar náttúrlega talsverð útmæling lóða og þess háttar; á sumum er sjávarútvegur. Fleira er tekið fram í greinargerðinni, sem mælir með því að hafa sjerstakan umboðsmann; ef umboðið yrði lagt niður, mundi þetta lenda á fleiri mönnum en einum. — Annars sje jeg enga ástæðu til að fjölyrða um þetta mál að svo stöddu.