25.03.1927
Efri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

85. mál, friðun hreindýra

Jónas Kristjánsson:

Áður en frv. fer til 3. umr. vildi jeg minnast fáum orðum á þetta mál, til þess að skýra, hvernig það horfir við.

Það er kunnugt, að á Austurlandi, uppi við Vatnajökul og víðar um nálægar afrjettir, hefst við talsvert hreindýra og hafa lifað þar á 2. hundrað ára. Þau eru sjaldan skotin, enda er viðkoman ekki meiri en svo, að sjeu þau látin afskiftalaus, fjölgar þeim hvorki nje fækkar, vegna þess, að í hörðum vetrum stráfalla þau og í jarðleysum koma þau oft niður í dalina. Verða þau þá stundum fyrir ýmsum áföllum, með því að þau eru að náttúrufari stygg, en þá oft svo máttfarin vegna megurðar, þegar hart er, að þau drepa sig á svellum eða hrapa í giljum, og hafa oft fundist svo á sig komin. Síðan 1901 hafa þau verið friðuð og því lítið sem ekkert skotin; en jeg hugsa, að standist á endum viðkoma og vanhöld og þeim hafi lítið eða ekkert fjölgað síðan. Þau eru friðuð aðeins til að lifa og drepast eftir því, sem náttúran vill. Er lítið gagn að því og miðar ekki að öðru en skemma afrjettarlöndin til dálítils skaða fyrir sumarhaga sauðfjár.

Mjer finst því frv. ekki fara í rjetta átt. Að skaðlausu mætti skjóta á sumrin eitthvað af karldýrunum, eða hreinunum. Það er vitanlegt, og reynsla þeirra, er til þekkja, að þeir drepa oft hver annan um æxlunartímann, í áflogum, fyrri part vetrar, enda eru þeir fleiri en kýrnar, því að kvendýrin eru veikbygðari og falla því fyr.

Að þessu athuguðu virðist mjer rjett að hafa dýravörð fyrir austan til þess að hafa eftirlit með því, að þau sjeu ekki drepin á vorin, þegar þau eru mögur. Því að það er ekki nóg að banna, nema strangar gætur sjeu á, að því sje hlýtt.

Í öðru lagi mætti leyfa vissan hluta árs, eftir settum reglum, að skjóta eitthvað af karldýrum, eftir því sem dýravörður áliti óhætt fyrir fjölgun dýranna. Yrði þá að gera þeim, er skjóta vildu, að skyldu að taka dýravörð með sjer á veiðar og kosta ferð hans. Slíkar veiðar yrðu sjaldan stundaðar í ábataskyni, heldur sem „sport“ og til gamans.

Það þyrfti að koma fram frv., annaðhvort frá einstökum manni eða stjórninni, um skipulag í þessum efnum. Þetta skipulagsleysi, að láta hreindýrin vera friðuð til þess að falla, engum að gagni, er til vansæmdar, í stað þess að hafa einhver not þeirra og fylgjast með, hvað líður fjölgun þeirra. Það mundi verða verkefni dýravarðar. Jeg hefi ekki komið með neitt frv. um þetta, heldur aðeins með þessar upplýsingar.

Jeg er málinu nokkuð kunnugur, því að jeg var læknir eystra í 10 ár, 1901–’11. Leituðu þá hreindýrin stundum niður til dala, er hart var inni á öræfum á vorin, og reyndi jeg þá að afstýra því og vara við því, að þau væru áreitt. Dýravörður ætti að koma í veg fyrir, að þau sjeu drepin á vorin. Það er ómannúðlegt að svifta dýrin lífi þá. Ekki nóg, að það sje bannað; það þarf líka sjerstakt eftirlit með því, að lögunum sje hlýtt. Annars legg jeg helst til, að málinu verði vísað til stjórnarinnar.