25.03.1927
Efri deild: 36. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

85. mál, friðun hreindýra

Jónas Kristjánsson:

Það þarf engum blöðum um það að fletta, því að það er staðreynd, að hreindýr falla oft í harðindum, Auðvitað fjölgar þeim svo aftur á góðu árunum. Það þarf ekki að vera sjerlega hart í sveitum, þó að hreindýr falli. Það þarf ekki annað en snarpir áfreðar komi á heiðum uppi, þar sem þau hafast við. Þá eru þeim allar bjargir bannaðar þar. Að því er fóður þeirra snertir, þá sagði jeg, að þau gætu ekki lifað eingöngu af grasi. Mjer er kunnugt um, að á einum bæ í Jökuldal náðist hreinkálfur, og hann fór strax að þrífast illa, þegar kræða og fjallagrös, sem tekin voru að haustinu handa honum, voru þorrin. — Annars var jeg ekki að mæla á móti frv. sjerstaklega, heldur að benda á, hvað gera mætti. Viðvíkjandi því, að örðugt sje að þekkja tarfa frá kúm, þá er það áreiðanlega enginn vandi, þar sem tarfarnir hafa geysistór horn.