05.04.1927
Neðri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

85. mál, friðun hreindýra

0525Sveinn Ólafsson:

Það hlýtur að vaka fyrir þeim mönnum, sem vilja friða hreindýrin, að viðkomu þeirra sje hætta búin og að það sje æskilegt og ekki þýðingarlaust, að þeim fjölgi. Á þessu er bygt frv. á þskj. 144. Jeg er líka þeirrar skoðunar, að þörf sje á að friða dýrin; dreg jeg það meðal annars af því, að útbreiðsla þeirra um þann landshluta, sem jeg þekki best, hefir ekki aukist síðustu 40 árin, heldur virst að þverra. Hinsvegar veit jeg vel, að engum er kunnugt um fjölda hreindýra í landinu, enginn maður hefir rannsakað það, hve stór stofninn er nú orðinn. Einnig held jeg, að það sje ágiskun ein, að þau hafi á síðari árum, svo að nokkru nemi, fallið vegna vetrarríkis. Jeg hefi spurt þá menn, sem kunnugastir eru á svo nefndum Vestur-Öræfum, norður af Vatnajökli og á Öxarheiði, hvort þeir hafi í fjallleitum á haustin hitt fyrir sjer mikið af beinagrindum hreindýra, og hafa þeir neitað því, að svo væri. Þeir hafa sagt, að það væri mjög sjaldgæft að hitta slíkar menjar fallinna dýra. En hefðu dýrin fallið í stórum stíl vegna vetrarríkis, þá hefði það hlotið að koma þannig í ljós.

Nú hefði mjer þótt eðlilegast, um leið og friðun er tekin upp af nýju, að gerð hefði verið rannsókn um fjölda og útbreiðslu hreindýra og athugað, hve stór stofninn kann að vera, að minsta kosti þó áður en farið er að veita leyfi til hreindýraveiða í stórum stíl, eins og nú hefir verið farið fram á, og það liggur ákaflega nærri, að slík rannsókn verði látin fram fara, sjerstaklega nú, þegar menn eru jafnvel farnir að hugsa um að flytja inn dýr frá Noregi til þess að stunda hreindýrarækt. Jeg býst sem sagt við, ef úr framkvæmdum ætti að verða um hreindýrarækt, að þá lægi fult eins nærri að handsama innlend dýr og reyna þá að ala þau upp eins og flytja inn útlend dýr.

Jeg ber fram brtt. á þskj. 287 við þetta frv., brtt., sem í raun og veru ganga í sömu átt og frv.; þær breyta ekki efni frv. í neinu verulegu, en jeg vildi með þeim koma að fyllri ákvæðum um það, sem í frv. stendur, og jeg hefi tekið upp í þessar brtt. þá einu undanþágu frá fullkominni friðun, að dýrin megi handsama til eldis, en lengra virðist mjer ekki rjett að fara að svo komnu. Jeg lít hinsvegar á brtt., sem fyrir liggja á þskj. 289 — sem reyndar er nýtt frv. — eins og frv. til ófriðunarlaga á hreindýrum; í öllu falli get jeg ekki felt mig við, að fyrirsögn frv. eigi að vera eins og þar stendur: Frumvarp til laga um friðun hreindýra, — því að það er að meira leyti fyrirsögn um það, hvernig veiðum hreindýra skuli hagað. Nú kunna brtt. þær að eiga við, þegar stundir líða og sjeð er, að stofninn sje stór orðinn, en eins og nú er ástatt held jeg, að þær eigi ekki við. Auk þess virðist mjer vanta í þetta frv. skýr fyrirmæli um það, hvernig eftirlitið með dýraveiðunum skuli framkvæmt og hver skuli bera kostnað þann, sem af því hlýtur að leiða, og ennfremur eru ekki nándar nærri nógu nákvæmar fyrirsagnir um varnir gegn misnotkun veiðileyfis. Jeg held t. d., að niðurlag 5. gr., um bann gegn því að skjóta í dýrahópa, sje þýðingarlítið. Því verður ekki með einfaldri fyrirsögn aftrað, að þeir, sem fá veiðileyfi, skjóti í hreindýrahópa þar sem veitt verður langt frá mannabygðum. Yfir höfuð að tala verð jeg að vera mótfallinn veiðileyfi á hreindýrum fyrst um sinn, meðan ekki er fullkunnugt um, hve mikið af þeim kann að vera til, og ekki er vitað, hvort stofninn þolir slíka veiði. Jeg held því, að það væri í raun og veru hyggilegast með þetta frv. farið, ef málið væri tekið út af dagskrá og því vísað til nefndar, því að jeg finn glögglega, að það er lítt undirbúið, og sennilega mætti í nefnd leita ýmsra nýrra upplýsinga og ganga tryggilegar frá því.

Jeg finn ekki ástæðu til að fjölyrða mikið um þetta. Jeg hefi ekki gefið ítarlegar skýringar á brtt. mínum: mjer finst þær skýra sig sjálfar. Þó vil jeg taka fram um brtt. mína við 1. gr. frv., þar sem stendur, að helmingur sektar skuli renna í sveitarsjóð þar, sem brotið er framið, að mjer virðist það ákvæði ekki geta staðist, því að brotin myndu oftast nær framin uppi á öræfum, utan við landamerki allra sveita. Þess vegna legg jeg til að breyta greininni svo, að hálfar sektir falli til uppljóstrarmanns, en hálfar í sveitarsjóð heimilissveitar hans. Með því hverfur allur vafi um greiðslu sektanna, en eftir fyrirmælum frv. myndi það orka tvímælis, hvert ætti að greiða þær.

Jeg vil þá að lokum endurtaka þau tilmæli, að málið verði sent til nefndar og athugað þar betur. Tillaga mín er, að því verði vísað til allshn., ef hv. deild vill fallast á að hafa þá meðferð á málinu, er jeg hefi bent á.