05.04.1927
Neðri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (527)

85. mál, friðun hreindýra

Halldór Stefánsson:

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hefir gert nokkrar athugasemdir um málið alment og um brtt. okkar á þskj. 289, og ætla jeg að víkja örstutt að þeim athugasemdum.

Háttv. þm. (SvÓ) byrjaði á því að segja, að hreindýrum myndi ekki hafa fjölgað næstliðin 40 ár. Þetta er, held jeg, ekki rjett, því að jeg veit, að fyrir rúmum 40 árum, eða þegar þau voru friðuð 1882, þá var kvartað um, að þau væru mjög fá orðin, og efalaust er það, þó að menn viti ekki, hve mörg þau eru orðin, að þau eru miklu fleiri nú en þau hafa verið þá.

Þá áleit hv. þm. (SvÓ), að það væri ágiskun ein hjá mönnum, að hreindýrum myndi hætt við að falla í hörðum vetrum, eða að þau myndu að minsta kosti ekki hafa fallið um hríð undanfarið, og færði það til, að menn, sem háttv. þm. (SvÓ) hefði spurt, segðu, að ekki fyndust beinagrindur inni á afrjettum. Jeg held, að þetta sje engin sönnun, því að þau falla einmitt ekki þar. Þau leita burt af þeim stöðvum áður en þau falla. Jeg man, að það kom fyrir fleirum sinnum í hörðum vetrum, að vart varð við hreindýrahópa, sem komu ofan úr afrjettum niður í bygð þar, sem jeg bjó á Fljótsdalshjeraði, og einu sinni man jeg til þess, að þau hröktust alla leið út af heiðarenda á milli Fljótsdals og Jökuldals og út í bygð á Úthjeraði, og í það sama sinn varð vart við þau á fjöllunum austan við Hjeraðið og jafnvel alla leið út við sjó þar á fjörðunum, og eitt sinn var hreindýr á slíkum hrakningum tekið á sundi á Seyðisfirði, og heyrt hefi jeg, að hreindýr hafi þá farist í Lagarfljóti og sömuleiðis hrapað í fjöllum þar eystra, og þess vegna er það ekkert að marka, þótt beinagrindur finnist ekki inni á öræfum; þau falla aldrei þar, því að þau leita þaðan áður en þau falla.

Þá hefir hv. þm. (SvÓ) borið fram brtt. við frv., þar sem leyft er að handsama dýr til að temja þau. Jeg hefi í sjálfu sjer ekki svo mikið á móti þeirri hugsun, sem liggur á bak við þetta. Það væri eðlilegt, að það mætti handsama dýr til þess að temja þau, en hinsvegar má geta þess, að það leyfi gæti verið misnotað, og í öðru lagi hefir verið lýst þeirri reynslu, sem menn hafa um það, hve erfitt það sje að temja hreindýr. Jeg sagði fyr, að reynsla manna væri sú, að þau vanþrífast mjög í fóðri, og ef þau lifa til vors, þá sleppa þau jafnan á fjöll aftur, og þessi ummæli mín styrkjast nokkuð við það, sem hv. 1. þm. Rang. (KIJ) hefir sagt síðan.

Þá sagði hv. þm. (SvÓ) um þessar tillögur okkar, að það væri rjettara að kalla þar ófriðunartillögur. Já, það er nú að vísu svo, að það er ekki alfriðun, sem við leggjum til, en við leggjum þó til, að þau sjeu alfriðuð meiri hluta ársins, og á þeim tíma, sem leyft er að veiða þau, er það mjög takmarkað og undir alveg sjerstöku eftirliti. Hv. þm. (SvÓ) taldi það ekki ljóst, hvernig ætti að haga því eftirliti, og heldur ekki, hver ætti að kosta það, en það stendur hjer í 4. gr. í tillögum okkar:

„Umsjónarmaður getur sett sjerstakan mann til eftirlits með hverri veiðiför, að reglum veiðileyfis sje hlýtt. Leyfishafi kostar för hans, enda er honum skylt að aðstoða við veiðina.“

Það mundi nú oft verða svo, að þeir, sem vildu fá veiðileyfi, væru ókunnugir á þessum öræfum og þyrftu einmitt að fá leiðsögumann, og þá mætti mjög vel sameina það, að leiðsögumaðurinn væri eftirlitsmaður, og það er þá ekkert nema tortrygni á þeim eftirlitsmanni, sem settur væri, að segja, að það væri engin trygging fyrir því, að veiðileyfið yrði ekki brotið, og jeg tel enga ástæðu til slíkrar tortryggni.

Þá gat hv. þm. (SvÓ) þess líka, að það, sem stæði í niðurlagi 5. gr., að bannað sje að skjóta í hreindýrahópa, myndi verða mjög brotið, en jeg vil vísa til þess, að það yrði einnig undir eftirliti þess manns, sem settur yrði eftirlitsmaður. Mjer finst það þess vegna algerlega öfugmæli að kalla þessar brtt. okkar ófriðunarlög, þótt ekki sje gert ráð fyrir fullkominni friðun.

Eins og upplýst hefir verið við umr. síðan jeg talaði, var það upphaflega tilgangurinn með því að flytja inn hreindýr, að þau yrðu tamin, en þegar það reyndist ekki hægt, þá getur það varla verið meiningin að alfriða þau fyrir mannshöndinni fyrir öllum nytjum, sem hægt er að hafa af að veiða þau, aðeins til þess að þau falli fyrir hönd óblíðrar náttúru.