05.04.1927
Neðri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (528)

85. mál, friðun hreindýra

Sveinn Ólafsson:

Jeg hefi í raun og veru engu að svara, og tel það líka tilgangsminna að svara, þar sem jeg vonast eftir, að málið fari í nefnd. En jeg vildi aðeins, út af því, sem hv. 1. þm. N.-M. (HStef) sagði um það, hvort hreindýrum hefði fjölgað, taka það fram, að jeg hefi ekkert fullyrt um, að þeim hafi ekki fjölgað á síðustu 40 árum; aðeins sagði jeg, að eftir öllum líkum að dæma hefði þeim ekki fjölgað, og ræð jeg það af því, að fyrir 40 árum var það miklu algengara en nú, að dýrin sáust út við sjó eða nærri bygðum, eins og það líka var miklu algengara að sjá flutt til kaupstaðanna dýrahorn til sölu heldur en nú er, því að nú má það heita sjaldgæft. Annars er það rjett hjá hv. 1. þm. N.-M., að ef dýrin falla að nokkru ráði, þá falla þau ekki eingöngu á öræfunum, heldur einnig nær sjónum, eða þar sem þau síðast leita fyrir sjer, en það hefir örsjaldan í mínu minni komið fyrir, að slíkar menjar hafi fundist á fjöllum milli sveita eða nærri bygðum. En þetta bendir til þess, að dýrunum hafi ekki fjölgað mikið á seinni tímum.

Jeg skal að öðru leyti taka það fram, að það eru í raun og veru alveg ólíkar stefnur, sem vaka fyrir mjer og hv. 1. þm. N.-M. Jeg vil, að dýrin sjeu friðuð að fullu meðan ekki er fengin nein vissa um fjölgun þeirra og útbreiðslu eða hvort kynstofninn má við veiði; hinsvegar stefna till. hv. þm. N.-M. að útrýmingu dýranna, ef veiðileyfi eru ógætilega notuð eða eftirlit með veiðunum verður sljótt.