28.04.1927
Neðri deild: 61. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (531)

85. mál, friðun hreindýra

Frsm. minni hl. (Árni Jónsson):

Jeg þarf ekki að segja nema örfá orð. Eins og stendur í nál., hefir minni hl. fallist á till. þær, sem bornar hafa verið fram á þskj. 289. Jeg þarf ekki að tala um þessar brtt., því að gerð var grein fyrir þeim við fyrri hl. þessarar umr. Það, sem ber á milli nefndarhlutanna, er ekki það, að báðir vilji ekki friða hreindýrin eða gefa þeim færi á að aukast, en ágreiningurinn er um það, hvaða aðferð sje heppilegust. Það hefir sýnt sig, að friðun hreindýra hjer á landi hefir ekki komið að tilætluðum notum, því að í hörðum árum hafa þau mikið fallið. Með tillögu þeirri, er minni hl. hefir fallist á, er gert ráð fyrir eftirliti með hreindýrastofninum og að menn geti fengið leyfi til þess að veiða dýrin gegn endurgjaldi. Við höfum gert ofurlitlar brtt. við till. á þskj. 289, sem gengur í þá átt að lengja friðunartímann, til þess að ekki verði hætta á því, að dýrin verði fyrir ónæði um tímgunartímann. Auk þess er rjett að ákveða, að eftirlitsmennirnir hafi 100 króna þóknun á ári. En þar sem hjer verður aðeins um fáa menn að ræða, þá verða þetta ekki tilfinnanleg útlát fyrir ríkissjóð. Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um málið, því að það er ofureinfalt.