21.02.1927
Efri deild: 10. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3631 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

Forsæti ráðuneytis

forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Þegar Jón heitinn Magnússon forsætisráðherra andaðist, átti Alþingi ekki setu, svo sem kunnugt er, og varð því ekki leitað til Alþingis að svo stöddu um tillögur viðvíkjandi ráðstöfun forsætisráðuneytisins. — Samkvæmt tillögu þeirra tveggja ráðherra, sem eftir voru, fjelst hans hátign konungurinn þá á það, að Jóni Þorlákssyni fjrh. væri falið forsæti ráðuneytisins, þangað til öðruvísi yrði ákveðið eða meiri hl. Alþingis óskaði breytingar.

Eftir að Alþingi nú er komið saman, þykir ekki rjett, að slík bráðabirgðaskipun um forsæti ráðuneytisins haldi áfram, heldur þykir sjálfsagt, að nú verði einhver forsrh. skipaður á venjulegan hátt með útgáfu venjulegs skipunarbrjefs handa honum. Ráðuneytið hefir nú leitað álits Íhaldsflokksins, sem er fjölmennasti þingflokkurinn og stuðningsflokkur núverandi stjórnar, um þetta, og hefir sá flokkur fyrir sitt leyti látið í ljós þá ósk, að sá maður verði áfram forsrh., sem nú gegnir því starfi.

Samkvæmt þessu leyfi jeg mjer að tilkynna hinu háa Alþingi, að svo framarlega sem ekki kemur fram innan hæfilegs tíma á þinglegan hátt ósk frá meiri hl. Alþingis um stjórnarskifti, þá mun verða lagt til við hans hátign konunginn, að út verði gefið á venjulegan hátt skipunarbrjef handa mjer, til þess að vera forsætisráðherra í núverandi ráðuneyti.