06.05.1927
Neðri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

123. mál, veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar

Jón Kjartansson:

Jeg hefi leyft mjer að flytja smávægilega brtt. við þetta frv., sem er að finna á þskj. 498. Brtt. fer fram á, að ráðherra skuli í reglugerð, sem hann setur fyrir þessa starfsemi, áskilja, að 10% af hagnaði fjelagsins fari til reiðvegar Reykvíkinga.

Eins og flestum hv. þdm. er kunnugt, þá hafa safnast hjer í bænum líklega langbestu gæðingar landsins; en hins vegar hefir það verið svo til þessa, að illmögulegt hefir verið að eiga hjer góðan reiðhest, vegirnir eru svo vondir, göturnar malbikaðar og grjótpúkkaðir vegir alt í kring. — Fyrir nokkrum árum tóku áhugasamir Reykvíkingar að ryðja reiðveg inn með þjóðveginum, og er hann kominn skamt upp í Mosfellssveit. Síðan þessi reiðvegarspotti var gerður, hefir verið mögulegt fyrir Reykvíkinga að eiga góða reiðhesta. En þessi reiðvegur þarf nauðsynlega að komast lengra, til þess að verulegt gagn verði að honum. Því hefi jeg flutt þessa brtt., að hægt yrði að hrinda þessum reiðvegi dálítið lengra. Þótt hann sje aðallega fyrir Reykvíkinga, þá eru það ekki þeir einir, sem hafa gagn af honum; sjerstaklega má geta þess, að vegurinn er nauðsynlegur sveitamönnum hjer austanfjalls, einkum á haustin við fjárrekstra, því að umferðin á þjóðveginum er svo mikil hjer við bæinn, að hann verður varla farinn með fjárrekstra.

Vænti jeg þess, að hv. deild hafi ekkert við þessa tillögu að athuga og samþykki hana eins og hún liggur fyrir.