13.05.1927
Efri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

123. mál, veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar

Jóhann Jósefsson:

Jeg hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, af því að jeg er ekki sannfærður um, að hjer sje svo mikið nauðsynjamál á ferðum, að þörf sje á að löghelga þessa veðmálastarfsemi eins og nú standa sakir. Hitt hefi jeg heyrt, að núna eigi þessi starfsemi sjer stað, en þá er hún ólögleg. Jeg játa, að jeg er persónulega alveg ókunnugur veðmálastarfseminni hjer, en af afspurn hefi jeg það álit á kappreiðaveðmálum alment, að þau sjeu til lítilla þrifa. Þau æsa spilafíkn manna, og það álít jeg síður en svo heppilegt. Hinsvegar játa jeg, að jeg er málinu ekki vel kunnugur, og því sagði jeg háttv. meðnefndarmönnum mínum, að jeg mundi ekki beita mjer neitt á móti því. — Jeg kannast við, að þörf er á að bæta reiðveginn. Það þarf ekki að fara langt út úr bænum til að sannfærast um það. En mjer virðist, að helsta gagnið af starfseminni eigi að verða endurbæturnar á þessum reiðvegi, þó að einungis 10% af ágóða fjelagsins eigi að renna til hans. Hin 90% fara sjálfsagt til skeiðvallar fjelagsins og verðlauna, er það veitir.