13.05.1927
Efri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

123. mál, veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar

Jón Baldvinsson:

Mjer þykir orðin lítil stefnufesta í löggjöf hins háa Alþingis. Annað árið bannar það hlutaveltur og happdrætti, vegna siðspillandi áhrifa af þeim. Hitt árið kemur ekki svo argvítug beiðni um svindilbraskssjerleyfi, að ekki sje gleypt við því. — Ef happdrætti eru skaðleg, þá er þetta það engu síður. Mjer er sagt, að í Reykjavík hafi verið tekin upp sú stefna að banna fjelögum að halda hlutaveltur, jafnvel þótt það sje gert í lofsamlegum tilgangi, til að styrkja ýmsa góðgerðarstarfsemi o. s. frv. En samt á að leyfa veðmálastarfsemi eins og þessa.

Jeg veit ekki, hvort vinir og velunnarar þessa frv. hafa athugað alt, sem hjer kemur til greina. Það þarf að taka fram, að þetta sjerleyfi sje ekki veitt um aldur og æfi. Einnig þarf að taka fram, að ríkið megi skattleggja þetta, o. m. fl. Það gæti í framtíðinni orðið mikil tekjulind. í greinargerðinni er sagt, að á síðustu 5 árum hafi verið veitt yfir 7 þús. kr. í verðlaun fyrir fljóta hesta. Þetta er sjálfsagt mest alt fengið með ólöglegri veðmálastarfsemi. Í greinargerðinni er tekið fram, að lítil regla hafi verið með aðgöngumiðasölu, og hlýt jeg því að efast um, að miklar tekjur hafi runnið þaðan. Á næstu árum má vel búast við, að tekjurnar verði ekki 7 þús. kr. á 5 árum, heldur 60–70 þús. kr. á hverju ári, jafnóðum sem ósóminn æsir hjá mönnum spilafíknina. En úr því að ríkið ætlar að leyfa þetta, vill það þá ekki taka þátt í „svínaríinu“ og heimta af því ríflegan skatt? Væri ekki rjett fyrir fylgismenn frv. að ganga betur frá þessu öllu saman. T. d. að taka fram, að leyfið skuli veitt til eins og eins árs í senn, eða aðeins í eitt og eitt skifti. Einnig að leggja megi á þetta meiri skatt en þessi 10% af ágóðanum til reiðvegarins. — Þetta á alt að taka fram í reglugerð, munu menn segja. En af þeirri reynslu, sem maður hefir af hæstv. stjórn um sjerleyfaveitingar á undanförnum árum, mega þeir frekar vænta, að hún gangi of nærri lögunum heldur en að hún fari of strangt í sakirnar. Hvernig var t. d. um reglugerðina fyrir h/f Útvarp? — Ef svona grautarlög verða samþykt, má búast við, að hægt verði að teyma hæstv. stjórn óendanlega langt. Ef til vill verður aldrei hægt að ná sjerleyfinu aftur, meðan til er fjelag með nafninu „Fákur“. — „Með skilyrðum ákveðnum í reglugerð“, segir ákaflega lítið, þegar ekki er einu sinni ákveðinn grundvöllurinn undir þeim skilyrðum. Málið er yfirleitt svo illa undirbúið, að hneyksli væri að afgreiða það.

Jeg veit ekki, undir hvaða ráðherra þetta heyrir að rjettu lagi. Ef það væri hæstv. forsrh. (JÞ), mætti ef til vill af reynslunni um lotteríið vænta þess, að hann yrði stirður um sjerleyfisveitinguna. En frá hæstv. atvrh. (MG) er síður góðs að vænta í þessu efni. — Þó að jeg sje hæstv. stjórn sjaldan þakklátur, held jeg, að hún væri vítalaus af mjer, þótt hún notaði ekki þessa sjerleyfisheimild.