13.05.1927
Efri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

123. mál, veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg bið hv. þm. Vestm. (JJós) forláts á því, að jeg gleymdi að geta um fyrirvara hans. Jeg hafði nál. sem sagt ekki með höndum og mundi ekki annað en að hann hefði skrifað undir fyrirvaralaust. — Jeg þarf annars engu að svara honum. Hann viðurkendi þörfina á reiðvegi, og barði annars mest við ókunnugleika sínum. — Það voru ekki svo lítil orð, sem hv. 5. landsk. (JBald) byrjaði með: „argvítug beiðni um svindilbraskssjerleyfi“. Sagði hann, að öllu slíku væri nú sint, og þótti mikil afturför frá í fyrra. Jeg man nú ekki betur en að samþykt væru á þingi í fyrra lög um stórkostlegt peningahappdrætti. (JBald: En það bannaði hlutaveltur). Rjett er það, en það hefir þá verið ósamræmi hjá þinginu í fyrra, en ekki nú. Auðvitað er þetta frv. á engan hátt sambærilegt við happdrættislögin frá í fyrra. Það væri að bera saman úlfalda og mýflugu. — Þá talaði hv. þm. (JBald) um verðlaunin og hjelt, að fje til þeirra væri mest fengið með ólöglegri veðmálastarfsemi. En fyrst þessi starfsemi er rekin á annað borð, er þá ekki viðfeldnara að setja einhver lög um hana? — Auk þess þykist fjelagið sjálft hafa mestar tekjur af aðgöngumiðasölu, en ekki af veðmálum. — Það er rjett hjá háttv. þm., að ekkert er talað um þau skilyrði, sem setja ætti í væntanlega reglugerð. En jeg held nærri því, að hæstv. landsstjórn væri trúandi fyrir þessu. (JBald: Stórt spursmál!). Við hv. 5. landsk. erum báðir stjórnarandstæðingar, en sá er þó munur á okkur, að hann trúir hæstv. stjórn ekki til neins, en jeg held, að hægt sje að nota hana til smásnúninga. — Hvað því viðvíkur að tala um tímatakmark, hygg jeg, að sá ótti, sem kominn er fram hjer í hv. deild, muni verða nægileg ábending til hæstv. stjórnar um það, hvað hún veitir leyfið til langs tíma. Ef þessi starfsemi sýndi sig við reynsluna að gefa mikið fje af sjer, er vel hugsanlegt að skattleggja hana seinna. Það er ómögulegt að hugsa sjer, að hæstv. stjórn gangi svo frá þessu, að hún setti ekki skilyrði bæði um tíma og annað, sem nauðsynlega tilheyrir í þessari reglugerð, sem ætlast er til, að hún gefi út samkv. þessu frv.

Annars get jeg ekki verið að kosta langri ræðu upp á þetta mál, sem í sjálfu sjer er ákaflega smátt, ekki síst þar sem þessi veðmálastarfsemi hefir farið fram í lagaleysi undanfarin ár, sem mun ekki þægilegt að sporna við. Að minsta kosti vildi jeg gjarnan heyra, hvaða ráð eru til að stemma stigu fyrir því, þótt engar reglur sjeu til, sem það leyfa.