14.05.1927
Efri deild: 74. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

123. mál, veðmálastarfsemi í sambandi við kappreiðar

Jón Baldvinsson:

Mjer sýnist þetta frv. ekki taka miklum stakkaskiftum til bóta, þó að þessi brtt. hv. allshn. verði samþykt. Að vísu lagfærir þessi brtt. eitt atriði af mörgum, sem varhugaverð eru, og kemur í veg fyrir, að leyfið gildi um aldur og æfi. Mjer þykir samt nefndin hafa ákveðið of langan tíma. Það var alveg nóg að veita leyfið til tveggja ára og láta svo reynsluna skera úr, hvort það skyldi framlengt. Aðfinsla mín við 2. umr. var m. a. bygð á því, að ráðherra væri veitt sjálfdæmi um að setja fjelaginu skilyrðin. Það er vitanlegt, að hjer er um að ræða hálfgert fjármálabrask. Erlendis a. m. k. er það svo, að allskonar prettir og óreiða og jafnvel glæpir sigla í kjölfar slíkrar veðmálastarfsemi eins og annara spilavíta. Þá er heldur ekki gert ráð fyrir neinum skatti af þessu fyrirtæki. Það má þó búast við, að fjárgróðahvatir manna verði æstar svo, að fjelagið hafi einhverjar tekjur af þessari starfsemi sinni; gæti jafnvel orðið stórgróðafjelag. Mjer finst þingið vel geta verið þekt fyrir, ef það veitir þetta leyfi á annað borð, að búa svo um, að svo sem 50% af tekjum fjelagsins renni í ríkis- og bæjarsjóð. Jeg álít líka alveg óhæfilegt að tiltaka nafn á fjelaginu, sem leyfið fær. Enginn veit, hve lengi fjelagið „Fákur“ lifir, en vel gæti risið upp annað fjelag jafngott, sem ekki væri minni ástæða til að veita svona leyfi. Mjer sýnist mál þetta meira rekið af kappi en forsjá. Mjer er ekki grunlaust, að gengið hafi verið nokkuð freklega í skrokk á hv. þingmönnum og þeir látið undan ofurkappi „agitatoranna“ án þess að beita dómgreind sinni nægilega vel, og því ekki sjeð, að hjer er óhreint mál á ferðinni. Þó að skamt sje eftir af þinginu, er ekki forsvaranlegt að flaustra málunum áfram og segja, að ráðherra muni lagfæra það, sem þarf. Jeg hefði haldið, að meiri þörf væri að leita afbrigða vegna einhvers annars máls en þessa. Jeg hefi ekki komið fram með brtt. við frv., því að jeg vissi ekki, með hvaða brtt. nefndin kynni að koma. Nú er sjeð, að hún kemur ekki með aðrar brtt. en þessa einu, svo að jeg hefi afráðið að bera fram rökstudda dagskrá, sem jeg skal lesa, með leyfi hæstv. forseta:

Þar sem mál þetta virðist ekki nægilega undirbúið, og meðal annars engar upplýsingar um það, hvernig erlendri löggjöf um veðmálastarfsemi háttað, þá telur deildin eigi rjett að samþykkja frv. og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.

Jeg álít þann rökstuðning, sem felst í þessari till., svo mikilsverðan, að sjálfsagt sje að fresta málinu a. m. k. í eitt ár. Það hefir ekki verið haft til hliðsjónar eitt einasta plagg um veðmálastarfsemi annarsstaðar. En um þetta eru til erlendis ítarlegar reglugerðir og löggjöf, sem nauðsynlegt væri að athuga, áður en málinu er ráðið til lykta. Jeg vænti því þess, að hv. deild samþ. þessa dagskrártill. mína.