06.04.1927
Efri deild: 46. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

109. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Þegar flutt var hjer á síðasta þingi að tilhlutan landsstjórnarinnar frv. um hafnarbætur í Borgarnesi, þá mintist hæstv. atvrh. (MG) á það, að í ráði væri að fá hingað á sumri komanda skip til þess að dýpka nokkrar hafnir landsins, þar á meðal Vestmannaeyjahöfn. Mun óhætt að segja það, að óvíða mun eins mikil þörf á hafnarbótum sem í Vestmannaeyjum. Þó að nokkuð hafi verið gert við höfnina undanfarin ár, þá hefir því ekki verið komið við að dýpka hana. Hefir og höfnin grynkað mjög síðan hafnargarðarnir voru bygðir.

Með sívaxandi bátafjölgun og flutningsþörf hefir það komið æ glöggar í ljós, hve örðugt er aðstöðu að því er innri höfnina snertir um ýms hafnarverk. Skip hafa þar iðulega orðið fyrir áföllum, bátar brotnað og annað tjón, sem af þessu hefir hlotist, auk annara óþæginda og kostnaðar, að jeg ekki tali um þá miklu hættu, sem það hefir í för með sjer, er menn hafa neyðst til þess að afgreiða skip utan hafnar, vegna þess að þeir hafa ekki fengið samþykki vátryggingarfjelaganna til þess að fara með skipin inn á innri höfnina.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefir nú ákveðið, eftir tillögum hafnarnefndar, að reyna að verða aðnjótandi starfs þessa dýpkunarskips, sjerstakæega þar sem það er ekki nema á löngu millibili að slíkt skip er fengið til landsins. Hefir hafnarnefnd gert ráð fyrir allmikilli upphæð í fjárhagsáætlun sinni í þessu skyni.

Vegna þeirra vandkvæða hefir verið goldið sjerstakt vörugjald í Vestmannaeyjum, sem vitanlega er erfitt að búa við á þessum tímum. Þetta gjald er á stórvöru þrefalt á við samskonar gjald í Reykjavík, og á sumum vörutegundum er það sjöfalt. En menn skilja það, að það er nauðsynlegt að leggja mikið á sig, ef þessar umbætur eiga að komast í framkvæmd, og jeg er þeirrar skoðunar, að þó að þessi vörutollur sje þungur, þá sje þó betra að búa við hann, ef umbæturnar fást fyrir það, án þess þó að jeg treysti mjer til þess að fullyrða neitt um það, hve lengi verður hægt að láta almenning í Vestmannaeyjum búa við þetta gjald, ef ekki batnar í ári. Samkvæmt framansögðu og eftir ósk bæjarstjórnar og almenns þingmálafundar hefi jeg ráðist í að flytja þetta frv. Það hefir orðið nokkur dráttur á því, að það kæmi fram hjer í þinginu, en það stafar af því, að jeg vildi ekki bera frv. fram fyr en fyrir lægi árangur af mælingum þeim og dýpkunarrannsóknum, sem gerðar voru í vetur, og kostnaðaráætlun. Er þessi kostnaðaráætlun, sem prentuð er aftan við greinargerð frv. á þskj. 309, gerð af herra vitamálastjóra Th. Krabbe. Gerir hann ráð fyrir, að um leið og höfnin verði dýpkuð, þá verði hlaðinn hafnarbakki. Hefir hann sagt, að þar sem vitanlegt sje, að mikil landþrengsli sjeu við höfnina, þá sje sjálfsagt að láta skipið moka sandi þeim, sem það tekur úr höfninni, í þennan hafnarbakka, í stað þess að fara með hann út í hafsauga, enda skapist með því móti dýrar lóðir við höfnina, sem bæjarfjelagið eignist.

Frá því að byrjað var á hafnargerðinni í Vestmannaeyjum, hefir íbúatalan þar tvöfaldast og tekjur ríkissjóðs af bænum margfaldast. Eru þær nú yfir 1/2 miljón á ári. Er því auðsætt, að um leið og ríkið hefir haft kostnað af framkvæmdum þeim, sem gerðar hafa verið í Vestmannaeyjum, þá hefir það fengið auknar tekjur af auknum rekstri atvinnuvegar Eyjabúa. Þegar byrjað var á hafnarbótum í Vestmannaeyjum, höfðu um 300 aðkomumenn atvinnu þar frá nýári til vertíðarloka. Nú er þessi tala orðin 1200. — Jeg bendi aðeins á þetta til þess að menn geti gert sjer í hugarlund, hversu stórkostlega atvinnureksturinn hefir aukist síðan farið var að bæta höfnina. Á hinn bóginn hefi jeg miklu nákvæmari upplýsingar í höndum, sem jeg get sýnt þeim, er óska, og jeg mun leggja fyrir þá hv. nefnd, sem fær málið til athugunar.

Áður hygg jeg, að frv. um hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar hafi ávalt verið vísað til sjútvn., en jeg legg það algerlega á vald hæstv. forseta, hvort hann álítur rjettara að þetta frv. fari til sjútvn. eða fjhn.