06.04.1927
Efri deild: 46. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

109. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Jeg þykist heyra, að hv. 2. þm. Rang. (EJ) sje ekki kunnugur í Vestmannaeyjum. Annars hefði ræða hans orðið á annan veg. — Hv. þm. talaði um „endurtekna heimtufrekju“ af hálfu Vestmannaeyja. Jeg get ekki kannast við, að það sje rjett til orða tekið. Þar til ríkissjóður fór að leggja til hafnarbótanna, munu hafa verið teljandi þau fjárframlög, sem fóru til þessa hjeraðs. — Hv. þm. talaði um, að sjórinn hefði verið látinn róta í sig hverri fjárfúlgunni af annari. Þarna kemur enn áþreifanlega í ljós ókunnugleiki hv. þm., því að það voru algerlega óviðráðanlegir náttúruviðburðir, sem skemdu hafnargarðana. Þeir eru líka alveg jafnnauðsynlegir, þótt höfnin hafi grynkað lítið eitt síðan þeir komu. Það stafar af því, að höfnin er kyrrari nú og sandur safnast því frekar í hana en þegar brimrótið fjekk að hafa þar lausan tauminn. Höfnin hefir batnað afarmikið við garðana. Áður var þar svo ókyr sjór, að oft urðu stórslys á bátum, og jafnvel eru þess dæmi, að bátar fóru beinlínis í sjóinn, er þeir lágu fyrir festum inni á höfninni. Höfnin hefir ávalt verið grunn, svo að ástæða hefði verið til að dýpka hana, en síðan hafnargarðarnir komu, hefir sandurinn þó heldur safnast meira fyrir en áður. — Hv. þm. (EJ) sagði, að hann mundi ekki verða þessu frv. mótfallinn, ef honum yrði sönnuð nauðsyn þess. Jeg vænti þess að geta lagt fram þau plögg, er sannfæri hv. þm. Hjer vil jeg aðeins endurtaka, að Vestmannaeyjar eiga afskaplega erfiða aðstöðu með höfn, og erfiðasta af öllum hinum stærri verstöðvum. En um frekari sannanir ætti hv. þm. ekki að þurfa að fara langt út fyrir sitt eigið kjördæmi. Það eru svo margir af hans kjósendum, sem þriðjung ársins stunda þar atvinnu, að hv. þm. ætti að geta fengið þær upplýsingar hjá þeim, er honum gætu nægt í þessu efni.