17.05.1927
Sameinað þing: 12. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3636 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

Dansk-íslensk ráðgjafarnefnd

Benedikt Sveinsson:

Jeg vil leyfa mjer að bera fram hin eindregnustu mótmæli gegn því, að farið verði að fjölga mönnum í þessari sambandsnefnd. Hún var kölluð „núll-nefnd“, þegar henni var þröngvað upp á Íslendinga 1918 af Dönum, sem vildu, að eitthvað kæmi í stað ríkisráðsins, Tvisvar hefir síðan verið gerð tilraun til þess að fá fjölgað í nefndinni. 1919 vildi Jón heitinn Magnússon fremur hafa þar 8 menn en 6, en Alþingi neitaði. Aftur átti að knýja fram fjölgun í fyrra, þótt ekki tækist, á lokuðum fundi, sem haldinn var gegn mótmælum mínum og Jafnaðarmanna, er heimtuðum, að málið væri rætt í heyranda hljóði. Jeg geri nú þá kröfu til Alþingis, að það hviki í engu frá fyrri stefnu sinni um þetta mál. Annars veit jeg, að ekki þýðir að rökræða þetta mál nú, þar sem báðir hinir stærri flokkar hafa þegar snúið saman bökum um að koma því fram. Það sást á lokuðum fundi, er fyrir skemstu var haldinn, að Íslendingar eru að verða Dönum ærið bónþægir. En jeg vil nú endurtaka það, er jeg sagði á hinum lokaða fundi, að jeg ann hæstv. forsrh. (JÞ) fremur fylgis þeirra forvígismanna Framsóknarflokksins, er hann hefir betra mál að flytja en þetta. Ef þessi fjölgun nær nú fram að ganga, þá þykir mjer enn sannast hið fornkveðna:

Lítilla sanda,

lítilla sæva,

lítil eru geð guma.