13.04.1927
Efri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (682)

109. mál, hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg get því miður ekki upplýst einstök atriði þessa máls sem skyldi, því að til þess hefi jeg ekki gögn við hendina nú. En það hefir þegar verið ráðið af bæjarstjórnum Vestmannaeyja og Akureyrar að láta fram fara dýpkun á höfnunum þar, og til þessa hefir verið haldið opnum möguleika með dýpkun hafnarinnar í Borgarnesi, sem ennþá er ekki fullráðin, því að rannsóknum viðvíkjandi henni er ekki að fullu lokið enn, eða að minsta kosti hafa þær ekki verið lagðar fyrir stjórnina.

Jeg held, að jeg megi fullyrða, að skipið geti framkvæmt dýpkunina á Akureyri og í Vestmannaeyjum að fullu í sumar, ef Borgarneshöfnin verður ekki með, en verði af framkvæmdum þar, þá verður vitanlega ekki eins mikið dýpkað á hinum stöðunum. Þetta eru þær almennu upplýsingar, sem jeg get gefið um málið, og jeg get bætt því við, að skipið getur með hægu móti dýpkað þar, sem sandbotn er, því að það er útbúið með sogdælum og öðrum nýtísku útbúnaði, sem nú er í slíkum skipum.

Viðvíkjandi fjárhagshlið málsins vil jeg taka þetta fram:

Eins og fyrirsögn frv. ber með sjer, er það viðauki við hafnarlög fyrir Vestmannaeyjar, en þau lög gera ráð fyrir því, að ríkissjóður greiði 14 kostnaðar við hafnarbætur þar og að stjórnin ábyrgist fyrir hönd ríkissjóðs lán fyrir Vestmannaeyjar fyrir 3/4 kostnaðar. Stjórnin vill nú heldur, að ríkissjóður greiði 1/3 kostnaðar við þessar hafnarbætur, eins og hv. fjhn. leggur til, og losni svo við ábyrgð á nýjum lánum, en að hafnarsjóður Vestmannaeyja greiði sinn hluta kostnaðarins af tekjum sínum á 2 árum. Þetta sýnist mjer fjárhagslega heilbrigðara heldur en að bæjarfjelag Vestmannaeyja leggi ekkert fram til fyrirtækisins, nema með láni, sem tekið er á ábyrgð ríkissjóðs.