12.02.1927
Neðri deild: 4. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

14. mál, óskilgetin börn

Magnús Torfason:

Jeg varð helst til seinn að taka til máls í næsta máli hjer á undan. En að því er þetta mál snertir, vildi jeg, nefndinni til athugunar, taka fram, að úr því að verið er að breyta þessu ákvæði á annað borð, þá er sjálfsagt um leið að breyta ákvæðinu um það, hvernig hægt er að koma fram dómi gagnvart barnsföður. Úr því geta oft orðið hin mestu vandræði. Það kemur oft fyrir, að móðir verður að sverja barnið upp á föðurinn, en nú í seinni tíð láta slíkir herrar oft ekki finna sig, svo að tíminn, sem móðirin hefir til að afleggja eiðinn, rennur út. Þess vegna þarf að setja í lög ákvæði þess efnis, að ef ekki næst í barnsföður, þurfi ekki að stefna honum til að vera við eiðtökuna.

Úr því að jeg er nú staðinn upp, vildi jeg einnig beina nokkrum öðrum athugasemdum til hv. nefndar, út af frv. til fátækralaga, sem þetta frv. er afspringur af. Í því er ein grein, hin 34., sem jeg vildi, að væri látin falla niður. Hún hljóðar svo:

„Ekki má halda undirboð á framfærslu þurfalings.“

Það er ekki af því, að jeg sje á móti ákvæði greinarinnar; þvert á móti lít jeg svo á, að það sje alveg sjálfsagt. En jeg held, að á Íslandi sje engin fátækrastjórn á svo lágu menningarstigi, að hún fari að halda undirboð á þurfalingum. Þetta ákvæði hefir lengi staðið í fátækralöggjöfinni hjer á landi, en mjer finst það vera blettur á íslenskri lagasetning, að láta það standa þar lengur. — Og af þeim kynnum, sem jeg hefi haft af sveitarstjórnarmálefnum í rúman mannsaldur, veit jeg, að óhætt er að fella niður ákvæðið.

Annað atriði, sem jeg vil benda á, er ákvæði 43. gr. um það, að sveitarstjórn skuli hafa heimild til að telja ekki með veittum sveitarstyrk þann styrk, sem veittur er sakir elli þiggjanda, ómegðar hans, veikinda hans eða þeirra, sem hann hefir á skylduframfæri, eða vegna annara óhappa hans. — Meiningin í greininni er sú, að sveitarstjórnirnar eigi að ráða því sjálfar, hvort þær telji þetta sveitarstyrk eða ekki. Stefnuna, sem liggur til grundvallar þessu ákvæði, álít jeg mjög lofsverða, og er hún þegar komin inn í löggjöfina með lögum nr. 31 1917, sem feldu niður ákvæði fátækralaganna um það, að enginn maður, sem þegið hefði sveitarstyrk, mætti kvongast eða giftast án samþykkis sveitarstjórnar, þar sem brúðguminn er sveitlægur. Á þingi 1917 var talsvert rætt um þessi lög, og duldist mjer ekki, að þá var þessari stefnu slegið fastri í fátækramálunum. — Annars verður varla sagt um þetta frv., að það fari fram á nokkrar stjórnarbyltingar á fátækralöggjöfinni, en þetta ákvæði er þó spor í rjetta átt. Vil jeg því, að hv. nefnd taki frv. vel. En það er annað, sem jeg álít varhugavert í þessu ákvæði eins og það er í frv., og það er, að sveitarstjórnirnar eiga sjálfar að ráða, hvort því sje beitt og hvernig því sje beitt. Framkvæmdin á ákvæðinu getur því orðið ákaflega misjöfn, eftir því hvort mannúðin stendur á háu eða lágu stigi í hreppi. Til þess að einhver jöfnuður komist á þetta um landið, þarf þess vegna að veita þurfalingunum rjett til að skjóta úrskurðunum til æðri stjórnarvalda, sýslunefnda og síðan atvinnumálaráðherra.