25.02.1927
Efri deild: 14. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

14. mál, óskilgetin börn

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Frv. þetta hefir gengið í gegnum hv. Nd. og tók þar aðeins einni breytingu, þeirri, að felt var aftan af því ákvæði um, að mæður óskilgetinna barna geti fengið meðlag af dvalarsveit til 14 ára aldurs eingöngu, en ekki til 16 ára eins og nú er.

Aðalbreyting sú, sem frv. ráðgerir á gildandi lögum, er sú, að ráðuneytið skuli ákveða meðalmeðlag á öllu landinu með óskilgetnum börnum. Verða þau ákveðin að fengnum tillögum sýslunefnda og bæjarstjórna, en ráðuneytið færir til betra samræmis till. þeirra. Um þetta varð enginn ágreiningur í hv. Nd., og vona jeg, að frv. fái greiðan gang í gegnum þessa háttv. deild.

Jeg legg til, að málinu verði hjer, eins og í hv. Nd., vísað til allshn., að þessari umr. lokinni.