28.02.1927
Neðri deild: 17. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Flm. (Sigurjón Jónsson):

Þegar lögin um varnir gegn berklaveiki voru hjer til umræðu á Alþingi 1921, var þm. mjög óljóst um þann kostnað, er þau hefðu í för með sjer. Kom þá fram í þskj., að kostnaður þessi mundi geta farið upp í 60–70 þús. kr., og áttu bæjar- og sýslufjelögin að annast um greiðslu á 2/5 kostnaðarins, en ríkissjóður 3/5.

Þetta var vitanlega áætlun, enda kom fljótt á daginn, að ekkert var á henni að byggja, eins og best sjest á því, að þegar á næsta ári, 1922, eru gjöldin vegna berklavarnalaganna komin upp í 131 þús. kr.; 1923 verða þau 280 þús.; 1924 330 þús., og nú eru þessi gjöld samkv. LR þeim, er liggur hjer fyrir til samþ., komin upp í rúma hálfa miljón króna. Auk þessara gjalda ríkissjóðs, hafa bæjar- og sýslufjelög goldið sinn skerf öll þessi ár: fyrst framan af 2/5 kostnaðar, en eftir 1923 dálítið minna, því að þá var sú breyting gerð á lögunum, að í stað 2/5 var sett hámarksgjald: 2 kr. á hvern heimilisfastan mann í sýslunni eða kaupstaðnum. Þessi breyting var gerð vegna þess, að 1923 voru þessi gjöld orðin lítt bærileg fyrir sum sýslu- og bæjarfjelög, eða komin upp í 3 kr. á hvern heimilisfastan mann í Varnir gegn einstökum sýslum. Undanfarin ár, eða síðan 1923, hafa svo bæjar- og sýslufjelög greitt þetta hámarksgjald. Aðeins tvö bæjarfjelög og tvö sýslufjelög hafa enn ekki náð því að greiða að fullu þetta hámarksgjald, en auðvitað mestan hluta gjaldsins samt. Hinsvegar hafa flest lögsagnarumdæmin orðið að leggja út til bráðabirgða talsvert hærri upphæð en þeim ber samkv. hámarksgjaldinu, en það hafa þau fengið endurgreitt úr ríkissjóði á sínum tíma.

Þetta frv. á þskj. 61 fer fram á að breyta 14. gr. laga um varnir gegn berklaveiki frá 1921 og að nema úr gildi lögin frá 1923 um sama efni. Breytingin er aðeins í því fólgin, að bæjarfjelög og sýslufjelög greiði hjer eftir upp í berklavarnakostnaðinn 2 kr. fyrir hvern mann í lögsagnarumdæminu, í stað þess að áður var þetta gjald hámark þess, er hverri sýslu eða bæjarfjelagi ber að greiða.

Að vísu mætti segja, að þeim 4 lögsagnarumdæmum, sem enn hafa ekki náð því að þurfa að greiða hámarksgjaldið, sje órjettur ger með þessari breytingu, og að þau greiði lítið eitt meira hjer eftir. En þá er því að svara, að óvíst sje nema þau þá og þegar nái því að fylla hámarksgjaldið. Um það skal engu spáð. Hinsvegar mætti benda á, að lögin um berklavarnir eru sett vegna landsmanna yfir höfuð, jafnt vegna lítið sýktu sveitanna sem hinna sýktu, og þess vegna rjettlátast, að allur kostnaður þar af leiðandi sje greiddur úr sameiginlegri fjárhirslu ríkisins, en ekki færður yfir á sýslu- og bæjarfjelögin.

Þess vegna tel jeg það ekki neina raunverulega breytingu, þó að öllum sýslu- og bæjarfjelögum sje gert jafnt undir höfði og látin greiða sama hámarksgjald, en hitt verð jeg að telja hagræði mikið fyrir lögsagnarumdæmin, að geta hjer eftir greitt gjaldið beint í ríkissjóð. En af því leiðir þá, að allir reikningar ganga beint til stjórnarráðsins, þar sem þeir verða úrskurðaðir. Enda tel jeg það sjerstaklega áríðandi, þegar um jafnhá gjöld er að ræða fyrir ríkissjóð, og ekki nema sjálfsagt, að stjórnarráðið endurskoði og úrskurði alla slíka reikninga. Þá gefst stjórnarráðinu líka tækifæri til að sjá um, að reikningarnir sjeu svo sundurliðaðir sem þörf er á.

Jeg tel ekki þörf á að hafa þessa framsögu öllu lengri, en skal þó geta þess, að það, sem aðallega kom mjer til þess að athuga þetta mál, var samþykt á þingmálafundi vestra um, að sýslu- og bæjarfjelög yrðu undanþegin þeirri kvöð að greiða öll þessi gjöld. Enda hafa sýslufjelögin oft lent í vandræðum og fjárþröng, orðið að taka lán, sem misjafnlega hefir gengið, til þess að geta í bili staðið straum af þessum geysimikla kostnaði. Má þetta því skoðast sem lántaka fyrir ríkissjóð, en virðist óþarft að sýslufjelögin eða bæjarfjelögin leggi þá kvöð á sig hans vegna.

Að vísu má segja, að með breytingu þessari verði um eitthvert rentutap að ræða fyrir ríkissjóð, en það ætti að vinnast upp í margskonar skriffinskusparnaði og ýmsu fleiru, sem breyting þessi hefir í för með sjer.

Að svo mæltu leyfi jeg mjer að mælast til, að frv. fái að ganga til 2. umr. og geri að till. minni, að því verði vísað til allshn.