05.04.1927
Neðri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

0726Frsm. minni hl. (Jón Kjartansson):

Mjer skilst, að það sje ærin krókaleið, sem hv. meiri hl. nefndarinnar og hv. flm. vilja fara í þessu máli. Aðaláhugi hv. meiri hl. og hv. flm. er það, að láta alla reikninga fara í stjórnarráðið. Jeg get ekki skilið annað en að stjórnin geti krafist allra fylgiskjala frá sýslumönnum og bæjarfógetum, svo þessi krókaleið til þess að ná þessu er algerlega óþörf. Til þess að ná þessu þyrfti ekki annað en að beina því til hæstv. stjórnar, að hún ljeti senda sjer öll fylgiskjöl með reikningunum. Jeg tel því algerlega óþarft að breyta berklavarnalögunum til þess að koma þessu fram.

Hjer er líka, eins og jeg hefi tekið fram áður, verið að auka mjög kostnaðinn hjá þeim hjeruðum, sem ekki hafa náð hámarki. Þegar ákveðið er, að öll hjeruðin skuli greiða jafnt, er þar með búið að slá úr höndum þeirra allan áhugann á því að minka kostnaðinn. En það er vitanlegt, að þau hafa mikinn áhuga fyrir því að fá kostnaðinn niður. Og þegar það fer saman, að ganga dyggilega fram í því að útrýma berklaveikinni og draga úr kostnaðinum, þá er það ekki rjett, sem haldið hefir verið fram af hv. frsm. og flm., að það sje rjettmætt, að öll hjeruðin greiddu jafnt. Með því að segja í eitt skifti fyrir öll, að öll hjeruðin skuli greiða jafnt, eins þau, sem búin eru að útrýma veikinni hjá sjer, þá verkar það sem svipuhögg á þessi hjeruð fyrir baráttu þeirra gegn veikinni. Jeg hygg, að þá sje best barist, er bæði ríkið, hjeruð og einstaklingarnir vinna saman að útrýmingu veikinnar; með því tekst hún, en fyr ekki. — Jeg vildi að lokum beina því til hæstv. stjórnar, hvort hún telur sjer ekki fært eins og nú standa sakir að koma því svo fyrir, að hún fái alla reikninga ásamt fylgiskjölum til sín og að þeir verði ekki greiddir fyr en þeir hafa verið úrskurðaðir í stjórnarráðinu. Það má vera, að það sje rjett, að hjeruð, sem hafa náð hámarki, komist ekki í bráðina niður fyrir það aftur. En þó get jeg ekki skilið í öðru en að það megi takast, þegar sjúkrahúsum fjölgar. T. d. er nú verið að reisa heilsuhæli á Norðurlandi, en fjölgun heilsuhæla hlýtur að vinna mjög á veikinni. Er því ekki ósennilegt, að berklakostnaðurinn geti þokast niður. Jeg tel það því mjög óhyggilegt að fastsetja framlag allra hjeraðanna, því að með því er slegin niður sú mesta hvöt, sem þau hafa til að vinna að útrýmingu veikinnar og að draga úr kostnaðinum.