17.05.1927
Sameinað þing: 12. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 3641 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

Dansk-íslensk ráðgjafarnefnd

Jónas Jónsson:

Út af ræðum háttv. þm. N.-Þ. (BSv) og háttv. þm. Borgf. (PO) vildi jeg segja nokkur orð í gagnstæða átt.

Það er ekki nema eðlilegt, að þeir menn, sem altaf hafa verið á móti þessu máli, sjeu það enn. En jeg held, að þær ástæður, sem þeir færa gegn því, sjeu ekki á rökum bygðar. Hinir dönsku meðlimir sambandslaganefndarinnar hafa ekki blandað sjer í íslensk mál. Þetta má sjá á gerðabókum nefndarinnar. Sömuleiðis, að íslensku nefndarmennirnir hafa staðið örugglega á verði fyrir hagsmunum landsins. Auk þess hafa jafnast í nefndinni ýms deilumál, sem upp hafa risið.

Jeg tók þetta fram í fyrra, og vil nú bæta því við það, sem hæstv. forsrh. sagði, að jeg tel óhyggilegt fyrir okkur að slíta skoðanatengslum við frjálslynda flokkinn danska, sem óskar eftir þessu, en hann hefir verið helsti málsvari okkar þar í landi, þegar mest. lá á. Hann er sem stendur minstur flokkanna í Danmörku og mundi missa sinn fulltrúa, ef þeir yrðu ekki nema þrír, en hægrimenn, sem kaldast hefir andað frá í okkar garð, koma í staðinn.

Út af kostnaðargrýlunni við nefndarstörfin vildi jeg skjóta því til háttv. þm. Borgf. (PO) og fleiri manna að láta ekki kostnaðinn við ferð þess manns, sem bætt er við, verða til hindrunar, því það er hægðarleikur að fella niður þá 500 kr. þóknun, sem nefndarmenn hafa nú, og yrði þá kostnaðurinn enginn. En jeg hefi þá trú, að okkar hagsmunum verði betur komið, ef við útilokum ekki úr nefndinni áhrif frjálslynda flokksins, sem með mestri sanngirni lítur á kröfur okkar Íslendinga.