30.04.1927
Efri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (738)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Jeg vil taka sem best undir till. hv. meiri hl. allshn. um það, að stjórnin taki lög þessi til endurskoðunar fyrir næsta þing. Það er svo, að jafnvel þó að ræst hafi í fullum mæli sá ótti hv. þm. A.-Húnv. (GÓ) og margra annara, að kostnaðurinn við framkvæmd berklavarnalaganna yrði afskaplegur, er þó ekki enn komið til fulls í ljós, hversu langt hann ætlar að fara fram úr því, sem menn bjuggust við, að hann yrði. Árið 1926 lætur nærri, að úr ríkissjóði væri greitt til styrktar berklasjúklingum þó miljón króna, en það leiðir af tilhögun þeirri, sem nú er og hefir verið, að greiðsla ríkissjóðs kemur að nokkru leyti eftir á. Fyrstu 3 mánuðina 1926 voru greiddar tæpar 40 þús. króna, en fyrstu 3 mánuðina 1927 nálægt 180 þús. króna. Það virðist þannig, enda þótt þessar tölur sjeu ekki alveg sambærilegar, þannig að þær sýni rjett hlutföll milli kostnaðarins alt árið 1926 og alt árið 1927, ástæða til að ætla, að kostnaðurinn fari svo hraðvaxandi, að endurskoðun laganna þoli enga bið. Um þetta hygg jeg, að margir sjeu sammála, og einkum þeir læknar, sem mesta þekkingu hafa á því, hvernig þessi löggjöf verkar og hvernig hún er framkvæmd. Jeg álít þess vegna, að það megi alls ekki draga það lengur en til næsta þings að gera þær breytingar á þessari löggjöf, sem komið geti í veg fyrir, að góður tilgangur berklavarnalaganna sje misbrúkaður, en fyrir það er naumast girt með núgildandi lagaákvæðum, og ekki heldur með því frv., sem hjer liggur fyrir, og þess vegna sýnist mjer heldur ekki ástæða til að samþykkja það. Þar á ofan er þar atriði, sem gerir það að verkum, að það er varhugavert að samþykkja þetta frv., ef á að endurskoða berklavarnalögin á næsta þingi, en það er það, að frv. fer fram á að taka upp nýja tilhögun að því er snertir greiðslu kostnaðar, og það er tilhögun, sem jeg er alveg sannfærður um, að verður ekki sú endanlega tilhögun, þegar búið er að ganga frá lögunum. Jeg er sannfærður um, að það verður ekki endað með því að leggja tveggja króna nefskatt á landsmenn; jeg þykist vita, að það muni verða einhver önnur tilhögun, sem fer nær því, sem í öðrum löndum hefir þótt kleift og hæfilegt að taka upp á þessu sama sviði. En ef svo fer, þá held jeg að það sje mjög hæpið að fara að taka upp þessa nýju tilhögun, sem má ætla, að gildi aðeins fyrir árið 1928. Jeg held, að það geri frekar rugling að fara að skjóta slíku millibilsástandi inn.

Ef jeg hefði von um það, að frv. gæti verið nægilegur grundvöllur til þess að laga það, sem laga þarf í núgildandi löggjöf eða í framkvæmd hennar, þá mundi jeg ekki fyrir mitt leyti leggjast á móti því. En mjer sýnist, að frv. eiginlega ekki muni leiða til neins árangurs að því er snertir sjálft aðalatriði málsins, og það er að sníða burt það, sem að skaðlausu má sníða burt af núverandi berklavarnakostnaði hins opinbera, ríkissjóðs, bæjarsjóða og sýslufjelaga í heild.