30.04.1927
Efri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (739)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Jón Baldvinsson:

Árið 1924 var borin fram á Alþingi, að nokkru leyti að tilhlutun stjórnarinnar, till. til breytingar á berklavarnalögunum. Það átti að vera í því skyni gert að draga úr kostnaði ríkissjóðs, það átti að nokkru leyti að flytja gjöldin aftur til hreppsfjelaga, sem nú eru lögð fram af sýslufjelögum, bæjarfjelögum og ríkissjóði, og auka eftirlitið með því, að þeir væru ekki styrktir, sem hugsanlegt væri, að gætu borgað fyrir sig sjálfir. Þetta frv. gekk langt í því að rífa niður lögin og tilgang þeirra, en varð ekki útrætt á þinginu 1924, og síðan hafa ekki komið breytingar í þá átt. En þetta frv. er ekki breyting á lögunum; það er breyting á fyrirkomulagsatriðum, og nefndin vill ekki samþykkja það.

Jeg álít ekki, að þetta frv. sje svo mikilsvert, að jeg telji það nauðsynlegt að samþykkja það, en jeg álít, að það sje ekki til ógagns, og því er jeg ekki með hinni rökstuddu dagskrá. Aðalástæðurnar eru þær, að andinn í ræðu hv. frsm. (JJós) og í nál. er þannig, að verið er að ýta undir hæstv. stjórn og allmarga þingmenn, sem eru þeirrar skoðunar, að það eigi að höggva skarð í berklavarnirnar, og ástæðan, sem fram er borin, er sú, að kostnaður hins opinbera sje orðinn svo mikill, en það er rangt hjá hv. meiri hl. nefndarinnar, að grundvallarhugsun berklavarnalaganna sje sú, að fátækir menn geti notið ókeypis læknishjálpar. Grundvallarhugsun þeirra er það, að útrýma berklaveikinni; en það er aðferðin til þess að ná því marki að láta menn njóta þeirrar styrktar, sem lögin heimila, af því að ef það er ekki gert, myndu svo margir draga sig í hlje og ekki láta vita um veikina, og verða þannig til þess að útbreiða hana, ekki aðeins að þeir yrðu ólæknandi sjúklingar, sem stytti aldur þeirra, heldur myndu þeir útbreiða veikina. Það er þess vegna, sem berklavarnalögin ganga svo langt í því að styrkja menn, að þau höfðu algerða útrýmingu veikinnar fyrir augum, en nú er andinn svo hjá hv. frsm. (JJós) og í undirtektum hæstv. stjórnar, að jeg er hræddur um, að fram komi hjá henni á næsta þingi frv., sem höggvi svo mikið skarð í berklavarnalögin, að það verði ekkert gagn að þeim, og fyrir því vil jeg ekki samþykkja þá dagskrá, sem hjer liggur fyrir, að jeg álít, að ekki megi minka varnirnar gegn þessari voðalegu veiki.

Jeg held, að ef lögunum frá 1921 sje rjett beitt, þá þurfi ekki þeir menn, sem augsýnilega eru vel efnum búnir, að fá ókeypis sjúkrahúsvist hjá ríkissjóði, en jeg álít, að það væri þó betra, að einhverjir efnaðir menn fengju ókeypis vist heldur en að svo langt væri gengið, að fátækt fólk færi á mis við lækningu, því að þá er sú trygging niður fallin, sem væri í því, að berklaveikissjúklingar væru styrktir til veru í hælum, í stað þess að vera á heimilum sínum, þar sem þeir gætu útbreitt veikina, því að vitanlegt er, að vörnum verður ekki eins vel komið fyrir á heimilum manna eins og í berklavarnahælum eða öðrum sjúkraskýlum.

Jeg vil ekki hvetja hæstv. stjórn til að fara að rýra varnirnar frá 1921, og mun því greiða atkv. á móti dagskránni.