30.04.1927
Efri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Einar Árnason:

Jeg vildi aðeins gera grein fyrir atkv. mínu í þessu máli. Jeg er í raun og veru sammála rökstuddu dagskránni, og líka sammála frv. Jeg lít líkt á þetta og hv. þm. A.-Húnv. (GÓ), að jeg tel, að þetta frv., sem hjer liggur fyrir, sje til töluvert mikilla bóta og hagræðis um framkvæmd berklavarnalaganna, og mjer þykir varhugavert að greiða atkvæði gegn þeim umbótum, sem í frv. felast, með það eitt fyrir augum, að það kunni að komast breytingar á þau í framtíðinni.

Jeg get búist við því, að þó að hæstv. stjórn vildi taka málið að sjer og leggja þá fyrir næsta þing nýtt frv., þá kunni að verða allmiklir örðugleikar á því að koma málinu í gegnum þingið svo fljótt, að það geti komið til framkvæmda jafnvel á næsta ári eða næstu árum.

Þetta berklavarnamál á mjög djúpar rætur hjá þjóðinni og hún fylgist áreiðanlega mjög vel með því, hvað í því máli verður gert. Það hefir verið sagt hjer, að það væri stefnt að því með berklavarnalögunum að útrýma berklum hjer í landi. Jeg held, að þetta sjeu aðeins hillingar; jeg get ekki hugsað mjer, að það sje hægt að semja lög, sem nálgist það takmark að ryðja berklaveikinni burt hjeðan, á meðan hún er til í heiminum, og þess vegna, þegar jeg greiði atkvæði á móti hinni rökstuddu dagskrá, þá er það ekki af því, að jeg vilji ekki, að hæstv. stjórn taki málið til athugunar, því að jeg tel það í raun og veru ágætt og nauðsynlegt, en jeg vil ekki þess vegna koma í veg fyrir, að þær umbætur, sem í frv. felast, geti náð að verka þar til önnur ný lög koma.