07.05.1927
Efri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (746)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Við 2. umr. þessa máls vildi meiri hl. allshn. vísa því til stjórnarinnar með þeim forsendum, að hún tæki berklavarnalögin og framkvæmd þeirra til rækilegrar athugunar og endurskoðunar og legði árangurinn í frumvarpsformi fyrir næsta þing. En hv. deild aðhyltist ekki þá till. meiri hl. Því hefir hann í samráði við hæstv. forsrh. (JP) komið fram með brtt., sem prentaðar eru á þskj. 514. Allshn. öll er sammála um þær og álítur nauðsynlegt, að þessar breytingar á nefndu þskj. komist inn í frv., ef það á endilega að ganga fram á þessu þingi.

Eins og nú er ástatt, er ekki nema um tvent að gera: annaðhvort er berklaveikur sjúklingur úrskurðaður styrkhæfur og kostnaður við sjúkrahúsdvöl hans endurgreiddur að öllu, eða sjúklingurinn nýtur einskis styrks. 1., 2. og 3. brtt. allshn. fara í þá átt að breyta svo til, að finna megi einhvern meðalveg í þessum efnum. Enda mælir öll sanngirni með því. Menn hljóta að vera misjafnlega styrkhæfir að þessu leyti. Með 4. brtt. er stjórnarráðinu heimilað að setja reglugerð með nánari ákvæðum um læknisvottorð og efnahagsskýrslu berklasjúklinga og annað það, er nefndinni þótti máli skifta og lýtur að því að gera auðveldara í framkvæmd að hafa eftirlit með þessum kostnaðarliðum meira en nú er af hálfu þess opinbera, sem ætlast er til eftir lögunum, að beri kostnaðinn.

Nú hafa hin ýmsu hjeruð fengið ákaflega mismunandi mikið endurgoldið úr ríkissjóði af þeim kostnaði, er þau hafa haft af berklavörnum. Kemur þar til greina mannfjöldi og misjöfn útbreiðsla veikinnar. Með lögum um breyting á berklavarnalögunum frá 20. júní 1923 er svo kveðið á, að fari gjöld sýslufjelags eða bæjar samkvæmt 14. gr. fram úr 2 kr. fyrir hvern heimilisfastan mann í lögsagnarumdæminu, skuli endurgreiða mismuninn úr ríkissjóði. Slík endurgreiðsla hefir átt sjer stað í stórum stíl til sumra hjeraða. En önnur hafa ekki fengið neitt endurgreitt og ekki krafist þess. Verður að líta svo á, að kostnaður við berklavarnir í þessum hjeruðum fari af eðlilegum ástæðum ekki fram úr þeim 2 kr., sem tiltekið er í lögum frá 1923. í frv., sem hjer liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að hvert sýslu- og bæjarfjelag greiði ákveðna upphæð í ríkissjóð upp í berklavarnakostnaðinn, eða 2 kr. fyrir hvern heimilisfastan mann í lögsagnarumdæminu.

Það er því lagður 2 kr. nefskattur á öll hjeruð í þessu skyni. En það sýnist ekki sanngjarnt að leggja hann á þau hjeruð, þar sem kostnaður yfirstígur ekki það mark, sem tilgreint er í lögum frá 1923, og eiga því ekki kost á neinni endurgreiðslu úr ríkissjóði.

Þess vegna hefir allshn. leyft sjer að koma fram með skriflega brtt. við 4. efnismálsgrein 1. gr. frv. Hún hljóðar svo:

„Fari gjald þetta fram úr 2/5 kostnaðar við berklavarnir, vegna sjúklinga, sem dvöl áttu í hjeraðinu, skal endurgreiða úr ríkissjóði það, sem umfram verður“.

Með öðrum orðum, til þess að koma jöfnuði á, leggjum við til, að þrátt fyrir breytinguna greiði þó ekkert hjerað meira en 2/5 kostnaðar, er stafar af sjúklingum, sem dvöl áttu í því hjeraði, er sá kostnaður fjell á.

Nefndin vonar, að hv. deild geti fallist á þessar brtt., því að telja má, að þær sjeu til stórra bóta, úr því að frv. á að ganga fram á þessu þingi og hv. deild hefir fallið frá því að bíða og láta endurskoða lögin í heild sinni. Fyrir því telur nefndin nauðsynlegt, að þessar brtt. verði samþyktar.