07.05.1927
Efri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í B-deild Alþingistíðinda. (748)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Jón Baldvinsson:

Brtt. allshn. eru að mínu áliti allar til skemda á frv. og lögunum. Ef þær ná samþykki, skilst mjer dregið úr áhrifum berklavarnalaganna og tilgangur þeirra hálfeyðilagður. Tilgangur laganna er sá, að útrýma berklaveiki, m. a. með því að styrkja sjúklinga til hælis- og spítalavistar. Þetta frv. dregur að mun úr þeim framkvæmdum, þar sem ráðuneytinu er falið að úrskurða, hvort sjúklingur skuli teljast fær um að greiða sjúkrakostnað sinn. Eftir því sem hæstv. ráðh. (JÞ) talaði, má búast við, að ríkt verði gengið eftir sjúkrakostnaði, en það gæti orðið til þess, að menn ljetu dragast í lengstu lög að leita hælisvistar, og yrði það auðvitað til þess að flýta fyrir útbreiðslu veikinnar. Mjer sýnist ekki ráðlegt að samþykkja tillögur, sem miða að því að draga úr berklavarnalögunum og ef til vill eyðileggja þau. Það er talað um að koma betri tilhögun á framkvæmd laganna, og mjer skilst, að sú endurbót eigi að vera í því fólgin að draga úr kostnaði ríkissjóðs. En hvar á þá að taka hinn hluta kostnaðarins? Er ekki hætt við, að það verði til þess að draga úr framkvæmd laganna, ef reynt er að minka tilkostnað ríkissjóðs? — Það hefir nú skotist upp, að í niðurlagi 1. gr. frv. felist ákvæði, sem heimili stjórninni að greiða aðeins hluta af kostnaðinum. Mjer finst ekki þörf á að setja fleiri ákvæði, sem ýta undir stjórnina um að draga úr því öryggi, sem á að vera um framkvæmd laganna. Jeg mun greiða atkvæði á móti öllum þessum brtt. allshn.