07.05.1927
Efri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Jónas Kristjánsson:

Jeg vil ekki láta þetta mál fara út úr deildinni án þess að segja nokkur orð. Það má segja, að aðaltilgangur berklavarnalaganna sje sá, að stuðla að lækningu sjúkra og að fyrirbyggja útbreiðslu veikinnar. En þessari veiki er þannig háttað, að það er ekki fljótsjeð, hvort hún er minkandi eða vaxandi í landinu; hún er svo hægfara og kemur ekki í ljós fyr en löngu eftir smitun. Jeg álít varasamt að gera þær breytingar á lögunum, sem draga úr áhrifum þeirra í þá átt að koma í veg fyrir afsýkingu. En það er um berklavarnalögin eins og önnur lög, að þau eru smíði, sem stendur til bóta; því er sjálfsagt að endurskoða þau. Það mátti búást við því í upphafi, að lögin yrðu dýr í framkvæmd, og veldur því margt. Þar, sem jeg þekki til, hefir það m. a. gert lögin dýrari í framkvæmd, hve húsakynni í sveitum eru bágborin. Meðan svo er, er ógerningur að senda sjúklingana heim fyr en þeir eru albata. Ef húsakynni væru góð, mætti senda þá heim miklu fyr. Reynslan hefir kent mjer, að ef sjúklingar eru sendir of snemma heim, koma þeir aftur miklu lakari eftir fáa mánuði. þingið þyrfti að gera ráðstafanir til þess að bæta húsakynni almennings. Á þann hátt yrði heilsu manna best borgið. í góðum húsakynnum sýkist fólk síður og á hægra með að halda þeirri heilsu, sem það hefir fengið við dvöl í sjúkrahúsum.

Um brtt. á þskj. 514 skal jeg taka það fram, að jeg tel þær til bóta, því að jeg hefi orðið þess var, að margir, sem svo eru efnum búnir, að þeir geta borgað þennan kostnað, vilja gera það, að minsta kosti að einhverju leyti. Þessa hefi jeg orðið var, meðal annars í sjúkrahúsi mínu. Er því ekki rjett að hafa lögin þannig úr garði gerð, að þeir menn geti ekki fengið að borga nokkurn hluta kostnaðarins, sem á annað borð hafa vilja og getu til þess, enda þótt þeir geti ekki borgað hann allan.

Annars hefi jeg dálítið aðra skoðun á heilsuhælisvist sjúklinga en margir aðrir. Jeg tel, að í mörgum tilfellum sjeu sjúklingarnir of lengi í heilsuhælunum, og venjist því um of á vinnuleysi; við það minkar starfsþráin og þeir fá leiði á lífinu. Það veikir aftur mótstöðukraftinn gegn sjúkdómnum og tefur fyrir batanum. Jeg teldi miklu heppilegra, ef þetta fólk, sem dvalið hefir í heilsuhælum og fengið þar svo mikinn bata, að það getur unnið, gæti komist á hressingarhæli, þar sem það gæti unnið dálítið og notið heitra lauga.

Það er því skoðun mín, að það myndi heppilegra að fá slík hressingarhæli heldur en þó að heilsuhælin væru stækkuð, svo fleiri menn gætu komist þangað, því að jeg hefi tekið eftir því, að margir, sem eru orðnir sæmilega hressir, fá fljótari bata, ef þeir vinna dálítið heldur en ef þeir gera ekki neitt; það bætir skapið og flýtir fyrir batanum. En þess ber að gæta, að þessi hressingarhæli þurfa að vera ódýrari í rekstri en heilsuhælin. Að öðrum kosti er tilganginum ekki fyllilega náð. Það gæti t. d. verið heppilegt að hafa þau í sambandi við gamalmennahæli, sem mikil þörf er á, að komist upp í sveitunum; með því væri líka hægt að fá sveitirnar til þess að taka töluverðan þátt í kostnaðinum við byggingu hælisins, og jafnframt myndu þær láta sjer ant um, að rekstrarkostnaðurinn yrði sem minstur.

Læt jeg svo úttalað um þetta mál, en það, sem jeg hefi sagt, eru aðeins lauslegar tillögur, sem jeg vildi leyfa mjer að skjóta til stjórnarinnar, til athugunar í sambandi við væntanlega endurskoðun þessara laga.