07.05.1927
Efri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Mjer virðist háttv. 5. landsk. (JBald) vera búinn að snúa við blaðinu og vera kominn á skoðun allshn., enda þótt hann vilji ekki kannast við það. Hann veit það, sem allir sjá og vita, að svo framarlega, sem framkvæmd berklavarnalaganna er haldið áfram á sömu braut eins og verið hefir, þá verður sá kostnaður, sem af þeim leiðir, bæði ofvaxinn ríkissjóði og hjeruðunum. Hv. þm. skilur ennfremur, að brtt. allshn. miða beinlínis að því að tryggja þeim, sem fátækir eru, að þeir geti haldið áfram að njóta sjúkrastyrks eins og verið hefir, þó að þeir, sem svo eru efnum búnir, að þeir með góðu móti geta borgað, sjeu látnir gera það að einhverju leyti, enda þótt þeir bíði dálítið efnalegt tjón við það.

Annars sje jeg ekki, að rök háttv. 5. landsk. í þessu máli sjeu þyngri á metaskálunum en rök hv. 6. landsk., sem er læknir, er hefir bæði þekkingu og reynslu í þessum efnum, en hann vill breyta því fyrirkomulagi, sem nú er á framkvæmd laganna. Aftur á móti vill hv. 5. landsk. láta þá óreiðu, sem verið hefir á framkvæmd berklavarnalaganna, haldast. Hann vill ekkert draga úr þeim óhæfilega háu tekjum, sem sumir læknar hafa í skjóli þessara laga. Það er því síður en svo, að hann beri hag fátæklinganna fyrir brjósti, sem hann þó þykist altaf vera að berjast fyrir. Sömuleiðis virðist hann ekki vita það, að það eru til fleiri fátækir sjúklingar en þeir, sem hafa berklaveiki, sem þó engan styrk fá. — Að síðustu skal jeg enn taka það fram, sem áður hefir verið tekið fram bæði af mjer og nefndinni, að við lítum svo á, að löggjöf þessa þurfi að endurskoða, og þá á þeim grundvelli, að þeir, sem fátækir eru og styrksins þurfa, njóti hans mest. Þetta hefir verið tekið skýrt fram áður, og er því ekki hægt að segja með fullum rjetti, að málinu sje stefnt inn á aðra braut en þessa. Þetta hefir líka verið stutt af háttv. 6. landsk. (JKr), þar sem hann tók fram, að það skipulag, sem felst í frv. þessu, væri aðeins til bráðabirgða.