07.05.1927
Efri deild: 68. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

50. mál, vörn gegn berklaveiki

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Hv. frsm. (JJós) kvað þessar brtt. bornar fram í samráði við mig. Það er nú kannske fullmikið sagt. Afstaða mín er sú sama og verið hefir, að eiginlega er jeg frv. mótfallinn, vegna þeirra fjárhagslegu afleiðinga, sem af því leiðir fyrir ríkissjóð á árinu 1928. sem nú er verið að setja fjárlög fyrir. Það liggja nú fyrir nokkurnveginn fullnægjandi skýrslur fyrir árið 1925, þó svo, að enn vantar reikningsskil úr þremur sýslufjelögum, Eyjafjarðarsýslu og Barðastrandarsýslu, en vitað er, að þær sýslur eiga að fá endurgreiðslu. Það hafa nú þegar verið greiddar 141 þús. kr., og það má gera ráð fyrir, að þessi hluti, sem ríkissjóður greiðir í bili, nemi á þessu ári 150 þús. krónum. Þennan hluta verður ríkissjóður eftir núgildandi lögum að greiða árlega, en lagabreytingin hefir það í för með sjer, að tveggja ára greiðsla þessa hluta kemur til útgjalda á árinu 1928, eða 150 þús. kr. útgjaldaaukning á því ári. Auðvitað er hjer aðeins um tilfærslu að ræða frá einu ári til annars, en útgjöld eru það samt. Jeg hefði fremur kosið, að þessar breytingar hefðu beðið þar til endurskoðun berklavarnalaganna fer fram. Brtt. nefndarinnar gera þó frv. aðgengilegra fyrir fjármálastjórnina 1928, því að þær ýta fast undir stjórnina um að koma á betri tilhögun á framkvæmd laganna en verið hefir. Jeg er þeirrar skoðunar, að takast megi að ná nokkrum fjárhagslegum árangri með breytingunum án þess að draga úr árangri berklavarnalaganna. Ráðuneytinu hefir virst þörf á, að heimild væri til þess að láta berklasjúklingum í tje nokkurn styrk, þó að efnahagur þeirra væri ekki svo bágur, að þeir þyrftu að fá allan kostnað ókeypis. Það er yfirleitt ilt að þurfa að úrskurða, að sjúklingar skuli annaðhvort borga allan kostnaðinn eða sleppa við hann með öllu. Nú hefir hv. flm. málsins í Nd. gert þá grein fyrir frv., að eins og það er afgr. frá Nd. sje stjórninni gefin heimild til að úrskurða sjúklingum styrk, þó að ekki sje þeim veitt með öllu ókeypis dvöl. Taldi hann þá heimild felast í niðurlagi 1. gr. frv., sem hljóðar svo: „Úrskurðar stjórnarráðið síðan eftir þessum gögnum, hvort sjúklingurinn sje styrkhæfur og að hve miklu leyti“. Þjár fyrstu brtt. nefndarinnar eru í samræmi við þennan skilning, en í hinni síðustu felst aðhald til stjórnarinnar um fastara skipulag, svo sem það, að heimta ítarleg vottorð um þá, sem styrks eiga að verða aðnjótandi, o. s. frv. Brtt. nefndarinnar gera raunverulegar breytingar á frv., svo að jeg mun ekki setja mig á móti framgangi þess, ef þær ná samþykki. Það eru ekki nema þrjú umdæmi, sem berklavarnakostnaður hefir orðið svo lítill, að hluti umdæmisins hefir ekki náð tveim krónum á íbúa. Það eru Seyðisfjörður, Skaftafellssýslur og Vestmannaeyjar. Jeg tel ekki óeðlilegt, að sú brtt. komi fram, að þau hjeruð, sem svo er ástatt um, fái endurgreitt það, sem á vantar, að berklakostnaður þeirra nemi tveim krónum á íbúa, svo að engu hjeraði sjeu gerð verri kjör en felast í núgildandi lögum.