26.04.1927
Neðri deild: 59. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (776)

113. mál, tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Frsm. (Klemens Jónsson):

Þetta mál, um 25% gengisviðaukann, kom fyrst fram á Alþingi 1924 og var þá af öllum skoðað sem bráðabirgðaráðstöfun. Fjárhagurinn var þá svo þröngur, að skjótra aðgerða þurfti við til að kippa honum í lag. Frv. var þá ekki miðað við eitt ár eða tvö, heldur við gengi sterlingspunds, og áttu lögin að gilda þar til sterlingspund væri fallið niður úr 25 kr. Hefðu hv. þm. vitað á þingi 1924, að það ár yrði svo gott sem raun varð á, tel jeg líklegt, að frv. hefði aldrei komið fram, eða a. m. k. ekki náð samþykki. En þótt það sýndi sig, að þetta ár var ekki bein þörf gengisviðaukans, kom hann þó að góðu gagni, þar sem hann var notaður til að borga lausar skuldir ríkissjóðs. Á þingi 1925 fór hæstv. stjórn fram á, að lögin væru framlengd, enda þótt afkoma ársins á undan hefði verið góð; en nú voru þau ekki lengur bundin við gildi sterlingspunds, heldur tímabundin, fyrst miðuð við 1. apríl 1926, og síðan við árslok það ár. Á þingi í fyrra voru lögin enn framlengd til ársloka 1927. Frv. er þannig ekki lengur bundið við gengi stpd., heldur eingöngu við tíma.

1926 þótti rjett að ljetta nokkuð á gengisviðaukanum, og var hann þá afnuminn að því er tók til vörutolls. Kom til mála að gera það víðar, þótt eigi yrði úr. Ýmsir, og jafnvel flestir, bjuggust við, að nú í árslok yrði honum með öllu afljett. En fjárhagurinn er þannig, að það sýnast engin tiltök, að ríkissjóður megi bráðlega missa þeirra tekna, er hann hefir af honum. Það sýnist alls ekki unt með öðru móti en því að takmarka stórkostlega verklegar framkvæmdir, eða draga úr útgjöldunum á annan hátt til stórra muna, svo sem með mikilli fækkun embætta. Nokkrar tilraunir til þess hafa undanfarið verið gerðar, en svo sem hið háa Alþingi nú er skipað, verður eigi búist við, að mikið sparist á því sviði. — Samkv. þessu hefir fjhn. ekki sjeð sjer fært að vera á móti frv. hæstv. landsstjórnar um að framlengja lögin um gengisviðauka enn á ný. Meiri hl. fjhn. vill, að frv. sje samþykt óbreytt, en tveir háttv. nefndarmenn hafa skrifað undir með fyrirvara, og munu þeir sjálfir segja frá afstöðu sinni.