26.04.1927
Neðri deild: 59. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

113. mál, tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Hjeðinn Valdimarsson:

Eftir þessari yfirlýsingu hæstv. fjrh. (JÞ) má búast við því, að hann vilji halda gengisviðaukanum varanlegum, svo að nú er ekki lengur um stefnu hans í því máli að villast. En hinu er ómögulegt að neita, að á landsmálafundum hefir hæstv. ráðh. (JÞ) viðurkent, að hjer væri aðeins um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, sem væri útrunnin í árslok 1927, og þessu hefir þjóðin trúað. Athugi menn löggjöfina, þá sjást þar tvö loforð, sem eru ákveðin í sambandi við gengisviðaukann. Annað er þegar búið að svíkja með nýjum lögum, að tollurinn skyldi ekki standa lengur en á meðan sterlingspundið væri yfir 25 krónur; hitt er það, að lögin hafa verið tímabundin. Hvorugt þetta atriði hefði verið nokkur ástæða til að hafa í lögunum, ef ekki hefði verið ætlast til þess, að lögin myndu breytast, þegar sterlingspundið fjelli niður fyrir 25 krónur og tíminn væri útrunninn. Það er þess vegna, sem jeg get ekki annað sagt en að þetta er blekking, sem heldur áfram í frv. stjórnarinnar, og sama er að segja um þær athugasemdir, sem eru við frv. hennar, að þar er aðeins getið um, að efnahagur ríkissjóðs megi ekki við því á næsta ári að missa þessar tekjur, en alls ekki getið um, að gengisviðaukinn verði til frambúðar.

Jeg vil aðeins lýsa undrun minni yfir því, sem hv. 1. þm. Rang. (KIJ) sagði, að hann hefði aldrei heyrt þess getið, að þessi lög væru neitt óvinsæl. Jeg hugsaði, að hann sem meðlimur Framsóknarflokksins vissi það, að þessi hái tollur væri óvinsæll, og að minsta kosti hefir flokkur hans barist á móti þessum tolli í blöðum, þó að aðrar framkvæmdir hafi orðið hjer á þingi. En hv. þm. (KIJ) er máske sjerstakrar skoðunar innan flokksins.